140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

692. mál
[15:23]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir að þetta frumvarp sé nú komið fram. Það var eitt af því sem hv. félags- og tryggingamálanefnd fór fram á að gert yrði þegar við samþykktum ný lög um málefni fatlaðs fólks sem tilheyrðu yfirfærslunni frá ríki til sveitarfélaga. Hér er um að ræða annan áfanga í réttindagæslu við fatlað fólk. Við samþykktum fyrir nokkru að tekin yrðu upp talsvert bætt réttindagæslukerfi þar sem réttindagæslumönnum um land allt var fjölgað verulega. Hlutverk þeirra er að gæta réttinda fatlaðs fólks.

Þetta mál sem við erum að fjalla um, nauðung, er afar viðkvæmt og vandmeðfarið þannig að ákveðið var að gefa þyrfti fólki tækifæri til að vinna það eins vel og nokkur kostur væri. Beiting nauðungar varðar grundvallarmannréttindi einstaklinga og þess vegna er gott að meginefnið hér er að til þess að slík heimild verði veitt eru það óháðir aðilar með sérþekkingu á málefnum fatlaðs fólks sem taka þær ákvarðanir.

Við munum með gleði taka við þessu verkefni í hv. velferðarnefnd, fara vel yfir það og skoða með þeim gleraugum sem þarf. Mér sýnist mjög vönduð og góð vinna á ferðinni og í góðri samvinnu þannig að ég vona sannarlega að við getum afgreitt þetta mál sem allra fyrst, og á þessu þingi.