140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[15:47]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil í upphafi þakka meiri hluta hinnar háu allsherjar- og menntamálanefndar fyrir að flytja þetta frumvarp sem ég tel fela í sér miklar framfarir. Ég held raunar að um heiðurslaunin, þó að það sé ekki spurning um daga eða ár, hafi verið komið þannig að annaðhvort væri að koma þessu í eitthvert fast form eða að leggja þau af sem ég hefði talið verra. Hér er klárlega gerð meira en tilraun til þess, hér er gerð góð tillaga að því að koma þessu þannig fyrir að um þetta skapist festa og það linni deilum um heiðurslaun listamanna sem hafa verið ákveðinn skuggi á þessu fyrirkomulagi lengi vel.

Ég þakka aftur fyrir að formaður skuli hafa minnst á tilraun mína til að gera þetta, það var veturinn 2004–2005, og ég fagna því að að töluverðu leyti sé ég samhljóm í frumvarpinu núna og þeirri þingsályktunartillögu. Þá er líka rétt að nefna að þingsályktunartillagan þá var byggð á ekki síðra starfi eldri fyrrverandi þingmanns, Svavars Gestssonar, sem flutti þingsályktunartillögu 1999 um þessi efni og þekkti þau vel því að hann var meðal annars fyrrverandi menntamálaráðherra.

Nokkrar athugasemdir og örlítil umfjöllun auk þess sem fram kom í andsvarinu áðan um fjölda listamanna. Ég tel að skilgreiningin í 3. gr. sé prýðileg á þeim sem eiga að hljóta þessi laun en mér finnst vanta þarna að gert sé ráð fyrir, þó að það sé ekki bundið í árafjölda eða með einhverjum slíkum hætti, að það sé einkum á efri hluta ævinnar sem þessi laun falli mönnum í skaut. Ég minni á það orðalag sem ég hafði sjálfur hér — ég man ekki hvort ég tók það frá Svavari, nei, ég tók það reyndar ekki frá Svavari Gestssyni vegna þess að hann gerði ráð fyrir tilteknum árafjölda — að miðað væri við að listamaðurinn væri kominn á eftirlaunaaldur eða nálgaðist starfslok. Þetta var samið af nokkurri gætni vegna þess að störf listamanna hafa ekki sama ramma og önnur störf. Eftirlaunaaldur er ekki hugtak sem listamenn geta horft á með sama hætti og menn sem starfa í öðrum greinum. Starfslok eru líka mismunandi hjá listamönnum. Hjá sumum og reyndar mörgum listamönnum er það þannig að starfslok eru bara við andlát, við brottför úr heiminum. Hjá öðrum er það þannig að starfslok eru jafnvel snemma á ævinni. Dæmi: Dansarar sem ljúka störfum í dansi á svipuðum tíma og atvinnuknattspyrnumenn. Hér þarf auðvitað að gæta ákveðins svigrúms.

Ég beini því til nefndarinnar að skoða þetta betur. Ég held að það sé síður hætta á deilum, eins og um nokkur þau tilvik sem deilt hefur verið um á undanförnum áratugum þar sem ungir eða menn varla á miðjum aldri hafa fengið launin, ef þetta er sett sem ákveðið viðmið með skilgreiningum sem eru þó það lauslegar að hægt sé að taka persónulegt tillit.

Ég tel það líka mikla framför hjá nefndinni að leggja til þessa nefndarstofnun þannig að það sé klárlega samráð sem nefndin hefur og hún fái ákveðnar tillögur um hverjum eigi að bæta við eða hverjir séu næstir í röðinni eða á hvaða menn sé rétt að horfa, listamenn, í þessu. Ég veit að Bandalag íslenskra listamanna hefur haft uppi hugmyndir um að stofna akademíu og ég tel að við þurfum að skoða það og nefndin þurfi að fara yfir það mál. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess að sinni en ég vil leggja áherslu á að þessi tillaga um nefndina, samráðsnefndina, sem forseti skipi á tiltekinn hátt er klárlega framför frá því sem nú gildir og hefur gilt undanfarna áratugi.

Ég held að viðmiðunin við starfslaun sé ágæt. Þar er komin upphæð sem er að sönnu ekki há, það er ekki hægt að sjá ofsjónum yfir starfslaunum listamanna, en það er þó alla vega tenging við tiltekin laun og ég held að þessi laun muni hækka núna — ég skal ekki segja, það er nú betra að formaður nefndarinnar flytji þær fréttir — ég held að þau muni hækka að minnsta kosti um 50% frá núverandi heiðurslaunum og yfir í tenginguna við starfslaun og þá er auðvitað ekki óeðlilegt að fara niður í 80% á eftir.

Forseti. Meira gæti ég rætt en ég legg áherslu á að ég styð frumvarpið í heild sinni og tel það okkur til heilla. Ég hrósa meiri hluta nefndarinnar fyrir að hafa lagt þetta frumvarp fram og endurtek að ég held að það hafi verið kominn tími til annaðhvort að skapa um þetta reglu og hafa undir því fastan grundvöll eða að leggja það af. Ef við hefðum gert það, sem ég veit að margir vilja, hefðum við þurft að svara mörgum öðrum spurningum sem þetta mál varða, ekki síst þeirri að þessi heiðurslaun hafa átt sér þá réttlætingu, fyrir utan heiðurinn sem hv. formaður nefndarinnar lagði mikla áherslu á, að lífeyrismál listamanna hafa verið og verða alltaf erfið. Þetta er bara þannig, hversu gott almennt lífeyrissjóðakerfi sem við kunnum að búa til verða lífeyriskjör listamanna, eftirlaun þeirra, alltaf mjög misjöfn. Sumir koma fjárhagslega ágætlega út úr sinni starfsævi, aðrir miður, m.a. vegna þess að þeir hafa ekki sinnt því eða ekki getað borgað í það lífeyrissjóðakerfi sem til er á hverjum tíma. Þeir sem vilja leggja þetta niður verða þá að svara þeirri spurningu: Hvernig á að koma til móts við menn sem hafa lagt sig alla fram og fært þjóð sinni mikinn árangur og gert vel? Hvernig á að leysa þeirra mál að lokum?

Læt ég þessu lokið að sinni, enda eftir tvær umræður um málið og skoðun í nefndinni.