140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

717. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Það er með mikilli ánægju sem ég mæli fyrir þessu máli, þessari tillögu til þingsályktunar, um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi frá allri allsherjar- og menntamálanefnd.

Rétt í upphafi er sjálfsagt að nefna að athygli almennings er mikil á átök og ágreining hér á Alþingi og í stjórnmálalífinu almennt, og ekkert undarlegt við það þar sem átökin eru mikil og harkaleg og stundum hatrömm á mörgum sviðum. Staðreyndin er samt sú að mikil samstaða er þvert á alla flokka, þar skiptir flokkapólitíkin engu máli heldur persónuleg skoðun og skynsemi hvers og eins, um mikinn meginþorra mála og í gífurlega mörgum málaflokkum. Í þeirri þingnefnd sem ég er formaður fyrir, allsherjar- og menntamálanefnd, á það við um langflest málin. Þar er mikil samstaða um málin. Auðvitað hefur hver sína skoðun og mikið er rökrætt og sérstaklega þegar kemur að málefnum löggæslunnar. Þar er mikill metnaður til að gera miklu betur. Við vitum öll að löggæslan hefur glímt við fjárskort og ýmislegt slíkt. Það er mikill vilji í nefndinni til að ná utan um þann málaflokk. Við náðum léttilega saman um að flytja tillögu þess efnis til Alþingis. Ég vona að hún nái fram að ganga í þessum mánuði þannig að þetta geti orðið að veruleika.

Kjarninn í tillögunni er sá að Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að undirbúa heildstæða aðgerðaáætlun gegn skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi í samvinnu við hlutaðeigandi ráðuneyti og stofnanir, auk allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Aðgerðaáætlunin á að liggja fyrir svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 1. október 2012.

Við höfum öll fylgst með fréttum af því, nú síðast á borgarafundi á Egilsstöðum, að skipulögð glæpastarfsemi hafi aukist á Íslandi, fest rætur. Það má segja að þetta hafi stjórnvöld, innanríkisráðuneytið og lögreglan, tekið mjög alvarlega strax frá upphafi. Við þessu var brugðist með mjög afgerandi hætti þannig að þess sæist strax stað. Fyrir ári var ákveðið að setja á fót sérstakt teymi, átaksverkefni, sem sporna ætti gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Við teljum nauðsynlegt að útvíkka starfsemi teymisins þannig að það nái líka til og beini sjónum að mögulegu mansali og vændi í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi. Í annan stað teljum við mikilvægt að átaksverkefnið verði framlengt. Þarna var löggæslunni gert kleift að skipa og setja afbragðsmenn í þetta verkefni eitt þannig að þeir þyrftu ekki að vera að stökkva í þetta meðfram öðrum önnum. Árangurinn af því er að mati innanríkisráðuneytis og lögreglunnar sjálfrar afar góður. Þeir hafa náð miklum árangri strax í upphafi þess að skipulögð glæpastarfsemi í þessari mynd hafi hafið innreið sína á Íslandi.

Við vitum að skipulögð glæpastarfsemi viðgengst í tengslum við sölu á fíkniefnum og eiturlyfjum og ýmsum öðrum óþverra og í tengslum við undirheimastarfsemi á Íslandi og við þurfum að beina sjónum okkar sérstaklega að þessu. Við leggjum því til í tillögunni að Alþingi álykti að fela fjármálaráðherra að tryggja að í frumvarpi til fjáraukalaga yfirstandandi árs verði gert ráð fyrir 50 millj. kr. fjárveitingu til starfa rannsóknar- og aðgerðateymis lögreglu gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem hafi samvinnu við lögreglulið um allt land. Þannig viljum við tryggja að strax núna geti lögreglan ákveðið að framlengja þetta átaksverkefni og eins og ég nefndi áðan að útvíkka það ef eitthvað er.

Aðalmálið í tillögunni er að setja á fót undirbúning að heildstæðri aðgerðaáætlun gegn skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi. Ég get nefnt að í nefndinni er á lokaspretti vinna við þingsályktunartillögu frá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og fleiri þingmönnum, alla vega úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, um að ráðast í gerð á heildstæðri löggæsluáætlun um allt land — mjög góð og vel unnin tillaga hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og meðflutningsmönnum hans, enda hefur hún verið vel unnin í nefndinni. Þingmaðurinn sem er umsjónarmaður tillögunnar, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, hefur unnið henni framgang. Nú styttist vonandi í að við getum afgreitt hana úr nefndinni og Alþingi geti tekið af stöðu til hennar í atkvæðagreiðslu sem allra fyrst. Það er að vísu sama hvaðan gott kemur. Mjög ánægjulegt er að í þessum lykilmálaflokki, sem snýr að löggæslu og baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, sé þverpólitísk samstaða. Það er gríðarlega mikilvægt. Ég held að það skipti mjög miklu máli fyrir löggæsluna í landinu líka að finna það. Auðvitað eru átök þar. Lögreglan rekur harða baráttu fyrir bættum kjörum og aðbúnaði og allt það, mjög gott mál og sjálfsagt og nauðsynlegt, en við þurfum að sameinast um þetta. Það hefur tekist í þeim tilfellum sem ég nefndi áðan. Þó að ekki séu þingmenn úr öllum flokkum flutningsmenn hefur tillagan fengið mikinn stuðning í nefndinni, og kemur vonandi hingað aftur.

Við segjum að skipulögð glæpastarfsemi hafi færst í aukana á undanförnum árum og glæpahópar í tengslum við alþjóðleg glæpasamtök, sem stunda skipulagða brotastarfsemi víða um heim, komið hingað. Svo er það rakið hver skilgreiningin á skipulagðri glæpastarfsemi er. Skipulögð brotasamtök stunda margvíslega glæpi. Hér á landi hafa þau einkum verið tengd við stórtæk fíkniefnabrot, gróft ofbeldi, fjárkúganir, hótanir, frelsissviptingar, bótasvik, vopnalagabrot og svokallaða handrukkun, auk þess sem vaxandi vísbendingar eru um að brotasamtök hafi aðkomu að mansali og vændi. Glæpasamtökin starfa með þeim hætti að þau sækjast eftir ungum piltum sem eru veikir fyrir og tæla þá inn í afbrotaheiminn.

Eins og ég nefndi áðan samþykkti ríkisstjórnin 4. mars 2011 að veita innanríkisráðherra 47 milljónir í tólf mánaða átaksverkefni sem við viljum núna framlengja. Fjórir rannsóknarlögreglumenn hafa alfarið helgað sig þessum verkefnum. Hefur afraksturinn verið meiri en vonir stóðu til fullyrðum við hér í greinargerð. Við byggjum það á upplýsingum sem við höfum aflað frá lögreglunni.

Frá árinu 2008 hefur greiningardeild ríkislögreglustjóra fylgst náið með þróun skipulagðra glæpasamtaka á Íslandi. Umsvif erlendra glæpahópa hafa aukist til muna, meiri harka er í íslenskum undirheimum en áður, ofbeldi grófara og vopnaburður tíðari. Aðgerðir lögreglu hafa dregið úr og hægt á þessari þróun en það er mat löggæsluyfirvalda að óhjákvæmilegt sé að halda áfram því átaksverkefni gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem stofnað var til á síðastliðnu ári.

Í vetur hafa Alþingi, innanríkisráðuneytið og lögreglan verið að byggja upp samstarf og reyna að þétta það mjög þannig að við séum einhuga í þessu öllu saman. Það skiptir miklu máli í baráttunni almennt. Síðan má nefna að öðru hvoru koma upp í umræðunni ýmis mál sem skipta lögregluna miklu máli í hennar baráttu, t.d. nú síðast um hvort heimila eigi lögreglumönnum að vera með skotvopn í bílunum, hvort þeir eigi að fá heimild til að nota rafbyssur o.s.frv. Þetta eru allt mjög áleitnar spurningar. Það er auðvelt og einfalt að stökkva strax í það að segja: Þetta er útilokað mál. Vopnaburður þeirra eykur bara vopnaburðinn í glæpaheimunum o.s.frv. En það er ekkert svart og hvítt í þessu. Við þurfum að skoða reynsluna frá Noregi og mörgum öðrum löndum þar sem lögreglan hefur talið sig nauðbeygða til að vopnast meira út af því að harkan og glæpirnir eru meiri. Þessa auknu hörku mátti sjá annars staðar á Norðurlöndum fyrir nokkru. Þó að við séum hér á eyju úti í Atlantshafi, og það einangri okkur og verndi að einhverju leyti, þá sögðu margir — og vitna ég þar í samtöl við lögreglumenn í nefndinni — að það væri einungis tímaspursmál hvenær þær öldur bærust til Íslands. Það gerðist óhjákvæmilega að einhverju leyti en lögreglan brást mjög harkalega við.

Við þurfum að taka afstöðu í heildstæðri aðgerðaáætlun gegn skipulagðri glæpastarfsemi, t.d. um það hvernig við búum lögregluna undir slík átök o.s.frv. Þetta eru allt áleitnar og stórpólitískar spurningar í þessu tilfelli, en sem betur fer er unnið að þessum málum þverpólitískt og málefnalega. Ég fagna því og þakka nefndarmönnunum öllum fyrir að sameinast um það með litlum fyrirvara að vinna og flytja þessa tillögu sem ég vona að við getum afgreitt fljótlega aftur úr nefndinni.

Ég legg til að að umræðu lokinni fari málið til nefndarinnar aftur og að við getum sameinast um að vinna meira og betur gegn þessu en menn gerðu ráð fyrir að þyrfti að gera fyrir nokkrum árum. Þróunin hefur leitt í ljós að grípa þurfti til mjög bráðra aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Hæstv. innanríkisráðherra hefur staðið sig feikilega vel í þessum málum og tekið þetta mjög alvarlega og veitt lögreglunni mikið liðsinni í því að byggja upp aðgerðir og viðbúnað til að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi og auknum umsvifum hennar í íslensku samfélagi.