140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

717. mál
[16:24]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Sem fulltrúi Framsóknarflokksins í allsherjar- og menntamálanefnd get ég staðfest þá samstöðu sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar, var að lýsa hér áðan. Það er mikil samstaða í nefndinni um þetta mál. Það gengur út á það að viðhalda starfi ákveðins teymis sem sett var í gang í fyrra í kjölfarið á því að ríkisstjórnin samþykkti, 4. mars 2011, að veita 47 millj. kr. í tólf mánaða átaksverkefni lögreglu til að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Þetta var sem sagt upphæð til eins árs. Það ár er liðið og hefur mjög góður árangur náðst af vinnu þessa rannsóknarteymis, en miðað við stöðuna er samt ekki hægt að hætta og leggja þessi störf niður. Það þarf að halda áfram og tillagan gengur út á það að tryggðir verði fjármunir í áframhaldandi starf þessa teymis og gerð verði heildstæð aðgerðaáætlun gegn skipulagðri glæpastarfsemi í landinu. Þetta er tvískipt mál, heildstæð aðgerðaáætlun verði unnin og peningar tryggðir sem búnir eru þannig að þeir komi inn á fjáraukalögum á yfirstandandi ári.

Varðandi stöðuna er alveg ljóst að við höfum verið svolítið sofandi í þessum málum. Unnið hefur verið að ýmsum greiningum á vegum ríkislögreglustjóraembættisins þar sem búið var að vara þingmenn, önnur stjórnvöld og almenning við því að skipulögð glæpagengi væru að festa rætur á Íslandi, væru að undirbúa það. Það var reyndar búið að vara okkur við í mörg ár á opinberum vettvangi með opinberum skýrslum og greiningum frá ríkislögreglustjóraembættinu. Við brugðumst frekar seint við, því miður. Nú erum við að vakna upp við þessa stöðu og erum að reyna að gera okkar besta, taka á þessu. Það þarf að gera meira en við höfum gert upp á síðkastið, miklu meira reyndar.

Ég vil nefna í þessu sambandi að þrjú mál sem framsóknarmenn hafa flutt eru þess eðlis að þau geta verið hluti af heildstæðri aðgerðaáætlun. Ég vona að þau þrjú mál verði öll samþykkt hér á Alþingi sem fyrst, því fyrr því betra. Ég ætla að nefna hvaða mál það eru:

Í fyrsta lagi hefur sú er hér stendur tvívegis flutt mál sem gengur út á að veita auknar rannsóknarheimildir til lögreglu — stundum hafa það verið kallaðar forvirkar rannsóknarheimildir eða fyrirbyggjandi rannsóknarheimildir. Ég tel að búa verði lögreglunni það umhverfi að hún hafi sömu rannsóknarheimildir og lögreglan hefur á öðrum Norðurlöndum en ekki minni eins og í dag. Það eru engin rök fyrir því að lögreglan hér hafi minni rannsóknarheimildir en lögreglan á Norðurlöndunum. — Það er hárrétt sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði hér áðan, það sem á sér stað á Norðurlöndunum því skolar líka hingað til okkar, yfirleitt nokkrum árum seinna.

Hver bjóst við því að hér yrði stundað mansal? Við bjuggumst ekki við því. Hér er stundað mansal, dómar hafa fallið í Hæstarétti um það. Hver á von á hryðjuverkaógn hér? Við lokum augunum algjörlega fyrir því. Við erum ekki laus við þá ógn. Við megum alveg búast við því að eitthvað gerist hér á Íslandi eins og gerst hefur annars staðar.

Norðmenn eru nýbúnir að lenda í gríðarlega alvarlegri hryðjuverkaárás, ótrúlegri árás og það samfélag er enn í sárum. Þetta getum við ekki útilokað hér. Ætlum við ekkert að rannsaka fólk sem er ógnandi? Ætlum við bara að loka augunum fyrir því? Það gengur að sjálfsögðu ekki, virðulegur forseti. Suma er hægt að stoppa af, aðra ekki. Ekki gátu þeir stoppað manninn í Noregi, en ég vil benda á að lögreglan í Danmörku gat stoppað árásina sem var í undirbúningi á Jyllandsposten og gat líklega komið í veg fyrir mjög mörg mannslát þar. Þannig að við verðum að sjálfsögðu að hafa þessar heimildir.

Þetta mál er komið mjög langt í vinnslu í allsherjarnefnd. Ég tel að Alþingi eigi — sérstaklega í ljósi þess að hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, kom fram með mál þar sem hann þóttist vera að auka þessar heimildir, svo kemur bara í ljós í faglegri vinnu í nefndinni að svo er alls ekki. Ef eitthvað er þá er verið að minnka heimildirnar. Hvers lags er þetta?

Í ljósi þess tel ég að við eigum að afgreiða það mál, að Alþingi eigi að taka nú í vor þá prinsippákvörðun, að veita lögreglunni þessar heimildir og að innanríkisráðuneytið fái það hlutverk að undirbúa lagafrumvarp. Það komi svo inn í haust og við förum þá yfir það með faglegum hætti. Þingið á að taka þessa prinsippákvörðun nú í vor. Við erum alveg undirbúin undir það faglega, þetta er sem sagt þingsályktunartillaga en ekki lagafrumvarp.

Síðan er það mál númer tvö, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson minntist á það. Það er löggæsluáætlunin sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson er 1. flutningsmaður að. Búið er að vinna það faglega í nefndinni líka og það er komið út úr henni. Þannig að við getum farið að afgreiða það mál hér í vor. Það gengur út á að skilgreina öryggisstig á Íslandi, þjónustustig lögreglu, mannaflaþörf lögreglu og þörf lögreglu fyrir fjármagn. Mjög gott mál og algjörlega nauðsynlegt að vinna það. Formaður Landssambands lögreglumanna, Snorri Magnússon, er nýbúinn að tjá sig um það í Morgunblaðinu og allar umsagnir eru gríðarlega jákvæðar í því máli.

Svo er það þriðja málið sem framsóknarmenn flytja sem heild, þingflokkurinn sem heild undir forustu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, það er tillaga til þingsályktunar um bann við skipulagðri glæpastarfsemi, að innanríkisráðherra búi til frumvarp sem banni að á Íslandi starfi brotahópar sem stundi starfsemi sem fellur undir alþjóðlegar skilgreiningar á skipulagðri glæpastarfsemi. Það er alveg ljóst hvaða alþjóðlegar skilgreiningar það eru. Það er nú þegar komið inn í lög, sú skilgreining, en slíkir hópar eru skilgreindir út frá því að þrír eða fleiri séu í hóp sem hafi meginmarkmið, beint eða óbeint, í ávinningsskyni að fremja með skipulegum hætti refsiverðan verknað sem varðar að minnsta kosti fjögurra ára fangelsi eða þegar verulegur þáttur í starfseminni felst í því að fremja slíkan verknað. Þannig að það er algerlega skilgreint hvað hér er átt við.

Á grundvelli 74. gr. stjórnarskrárinnar teljum við að við getum bannað slík samtök. Hér má stofna félög í löglegum tilgangi. Ákveðnir hópar eru að okkar mati stofnaðir í ólöglegum tilgangi, eru flokkaðir sem skipulögð glæpasamtök, meðal annars á vettvangi Europol og samkvæmt skilgreiningum sem tengjast Palermo-samningnum, og ég hef ekki tíma til að fara mjög djúpt ofan í það. Stjórnarskráin okkar er ekki sambærileg stjórnarskrá Danmerkur að þessu leyti — búið er að skoða það af fræðimönnum og fólki sem stundar nám í háskólum — þannig að við höfum meira svigrúm til að banna svona samtök en Danir.

Þetta eigum við að sjálfsögðu að gera, virðulegur forseti. Hér eigum við að tryggja öruggt samfélag. Við eigum að tryggja öryggi borgaranna. Það er gríðarlega mikilvægt að við þurfum ekki að búa við þjófnaði, líkamsárásir, skemmdarverk, hótanir o.s.frv. og við eigum að gera allt til að vinna gegn því. Við erum búin að setja þessi mál á oddinn, við framsóknarmenn, með þeim þremur tillögum sem við höfum flutt hér til þingsályktunar, sem ég hef verið að lýsa. Við munum áfram færa sterk rök fyrir því að reyna að klára þessi mál öll og erum mjög ánægð með að allsherjarnefnd skuli áfram ætla að bakka lögregluna upp varðandi þann rannsóknarhóp sem fór í gang í fyrra.

Það eru þrír aðilar sem aðallega fá þetta fjármagn, þær 50 milljónir sem hér er verið að leggja til. Það er embætti ríkislögreglustjóra, undir forustu Haraldar Johannessens, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, undir forustu Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra, og lögreglan á Suðurnesjum, undir forustu Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á Suðurnesjum. Og talandi um hana þá er hún nýbúin að vera í mjög fínu viðtali í Mannlífi þar sem hún er einmitt að lýsa þessari skipulögðu brotastarfsemi sem hún og fleiri eru að berjast gegn með ágætisárangri.

Virðulegur forseti. Það er mjög brýnt að afgreiða þessa tillögu sem fyrst, viðhalda starfi lögreglunnar í þessum málum. Ég hef reyndar efasemdir um að þetta fjármagn dugi líka til þess að taka á vændi og mansali eins og hér stendur. Ég tel að þetta þurfi allt að fara í skipulagða brotastarfsemi. En allt í lagi, látum þetta standa, en ég tel að aukafjármagn þurfi í það að taka á vændi og mansali af því það er málaflokkur, sérstaklega vændið, sem við höfum ekki sett peninga í þrátt fyrir að við (Forseti hringir.) höldum að við séum að leggja mikla pólitíska áherslu á það mál.