140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[16:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Magnúsi Norðdahl fyrir prýðilega yfirferð yfir málið. Ég tel vera þverpólitíska samstöðu um markmiðið með þessu frumvarpi en áhöld eru um hvort við séum að nota réttar aðferðir til að vinna það. Eins og hv. þingmaður kom inn á var þó nokkuð mikil umræða um það í nefndinni hvort málið ætti ekki frekar að heyra undir allsherjar- og menntamálanefnd.

Rökin fyrir því eru einfaldlega þau að þessi málaflokkur á í raun heima þar og þar ætti að vera meiri sérfræðiþekking til staðar til að vinna úr þessum flóknu málum því að þó svo að flest hér ef ekki allt, sé þess eðlis að um það er pólitísk sátt eins og ég nefndi, þá er afskaplega mikilvægt að hafa góða yfirsýn yfir málaflokkinn. Stundum þegar menn fara af stað með góðan ásetning í huga geta afleiðingarnar orðið slæmar og ætla ég ekki að rekja nein dæmi um það. Það sem menn hafa áhyggjur af er í raun heildarmyndin í þessum málum og ég hef líka, virðulegi forseti, miklar áhyggjur af því að okkur hefur ekki tekist að koma því á með áþreifanlegum hætti að þessi mál fái einhvers konar flýtimeðferð. Miðað við þær upplýsingar sem hv. nefnd hefur borist og ég kallaði eftir í þinginu og hafa verið upplýstar í þingsal, verður það í fyrsta lagi í haust, ef allt gengur upp, virðulegi forseti, sem dómar munu falla sem verða til þess að leysa úr flækjunni, sem m.a. er til komin vegna þess að hér var ekki vandað nógu vel til verka. Ég er þá sérstaklega að vísa í lög nr. 151/2010.

Ég er enn að fá kvartanir, virðulegi forseti, og fékk bara núna í vikunni frá nokkrum aðilum, um að verið sé að tefja mál af hálfu fjármálafyrirtækjanna og ekki sé ýtt á að þau fari í gegnum dómskerfið. Á meðan á þessum töfum stendur blæðir fyrirtækjunum og einstaklingunum út. Sömuleiðis voru að berast núna í tölvupósti athugasemdir frá Hagsmunasamtökum heimilanna sem varaformaður þeirra samtaka sendi, sem ég tel afskaplega mikilvægt að við förum yfir. Við erum búin að ræða þetta nokkuð, virðulegi forseti, og ég vildi kannski nota aðstöðuna, því að mér sýnist að hv. þm. Magnús Norðdahl ætli að fara í andsvar við mig, og spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki rétt hjá mér að við ræddum það að vísa málinu eftir 1. umr. til allsherjar- og menntamálanefndar. Mig minnir að það hafa verið í umræðunni og ég mundi ætla að það væri skynsamlegt því að mistökin, ef þau verða, gætu orðið dýr. Við erum sammála um markmiðin og ég ætla ekki að fara efnislega yfir alla þá þætti sem hv. þingmaður fór yfir, ég sé enga ástæðu til þess. Ég geri ekki athugasemdir við framsetningu hv. þingmanns. Vandinn er sá að koma með úrræði sem virkilega nýtast. Eitt flækjustigið í þessu er að það er ekki alveg skýrt þegar kemur að fullnustuaðgerðum hvort alltaf sé eingöngu um að ræða gengislánin eða hvort þau séu bara partur af stærri mynd o.s.frv., svo ég setji fram eitt dæmi um það sem menn fjölluðu um í nefndinni.

Ég vildi nota tækifærið til að spyrja um þetta, virðulegi forseti. Ég tek það fram að við höfum ekki með neinum hætti tafið fyrir þessu máli og áskiljum okkur allan rétt að styðja einstök atriði í frumvarpinu og það jafnvel í heild sinni, en ég mundi ætla að það væri mjög skynsamlegt ef allsherjar- og menntamálanefnd tæki við þessu máli í kjölfarið, eins og ég hélt að við hefðum rætt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Hv. þm. Magnús Norðdahl upplýsir okkur kannski betur um það.