140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[16:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir ræðu hans. Það er nokkuð góð sátt um þetta mál og ég trúi því að það fái farsæla lausn. Það var uppi í nefndinni vafi um í hvaða nefnd þetta ætti að lenda að lokum og að höfðu samráði við formann nefndarinnar og að fenginni þessari athugasemd þingmannsins ætla ég að breyta tillögu minni, frú forseti, og leggja til að málið verði sent til allsherjar- og menntamálanefndar.

Rétt er að hafa í huga hvað varðar flýtimeðferðina í þessum málum að það eru fjármálafyrirtækin, einstaklingar og dómstólarnir sjálfir sem hafa verulega mikla hagsmuni af því að ekki myndist löng biðröð fyrir dómstólunum af samkynja málum. Það var að minnsta kosti mín trú eftir að hafa fengið þá í heimsókn fyrir nefndina að það yrði niðurstaðan hjá þeim að dómstólarnir mundu gera sitt ýtrasta til þess að þessi mál fengju sem fljótasta meðferð innan dómstólakerfisins og jafnvel lagt þannig upp að hægt væri að vera með þessi mál fyrir Hæstarétti á haustmánuðum. En hafandi nokkra reynslu af því gæti ég trúað að það mundi kannski teygjast fram undir áramót eða upp úr áramótum.