140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

bætt heilbrigðisþjónusta og heilbrigði ungs fólks.

680. mál
[17:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er voða erfitt að vera á móti svona máli því að þetta hljómar allt saman svo vel en ég vildi nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort menn hafi ekki í hv. velferðarnefnd rætt það sem hefur verið samþykkt en ekki framkvæmt. Mér sýnist flest, nokkurn veginn allt það sem hér var nefnt, koma fram í heilsustefnu sem var samþykkt og kynnt haustið 2008 með nákvæmum markmiðum og mælanlegum aðgerðalista.

Ástæðan fyrir því að farið var út í þessa heilsustefnu er sú að menn höfðu áhyggjur. Ég held að það komi ágætlega fram í þessari þingsályktunartillögu að menn hafi áhyggjur af ýmsum þáttum, sérstaklega sem snúa að ungu fólki. Þessi heilsustefna var hugsuð fyrir alla en þó sérstaklega ungt fólk. Fyrstu skrefin þar, 30 ef ég man rétt, miðuðu fyrst og fremst við ungt fólk. Ég fann ekki fréttina í tölvunni en nýlega birtist frétt um að við þyrftum meðal annars að hafa áhyggjur af hreyfingarleysi og ofþyngd hjá ungu fólki. Geðræn vandamál voru sérstaklega tekin fyrir líka sem áhersluatriði sem eru miklu stærra mál en menn ætla. Fjórði eða fimmti hver Íslendingur er þjakaður af slíkum vandamálum með einhverjum hætti um ævina og það veldur mestu vinnutapi alls staðar, ekki bara hjá Íslendingum.

Ég spyr: Hefur það ekki komið til álita hjá hv. velferðarnefnd að skora á hæstv. velferðarráðherra að framkvæma þessa heilsustefnu? Án nokkurs vafa má bæta við hana og það á að gera, en í það minnsta var lögð gríðarlega mikil vinna í að framkvæma hana. Við getum ekki verið ósammála markmiðunum í henni. Við getum bætt við, gert betur en að minnsta kosti þarf að framkvæma það sem er til staðar. Ég spyr hv. þingmann að því.

Síðan gæti ég farið í það sem snýr að unglingamóttökunni, sem er áhugavert, en það tengist líka öðrum málum sem hefur verið unnið í. Guðjón Magnússon, blessuð sé minning hans, einn okkar albesti sérfræðingur á sviði heilbrigðismála, sem var framkvæmdastjóri hjá WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, leiddi hóp um heilsugæsluna og tillögur um breytingar á henni þar sem tekið var á ýmsum þáttum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það kemur fram í þessari tillögu að unglingar sækja ekki jafnmikið og þeir ættu að gera til heilsugæslunnar. Það eru fleiri sem ættu að hafa betri aðgang að henni. Ég ætla ekki að fara yfir það núna en ég spyr einfaldlega: Af hverju skorar hv. velferðarnefnd ekki á hæstv. ráðherra að framkvæma þá stefnumótun sem er til staðar, þá aðgerðaáætlun?