140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[17:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur hv. þingmaður farið yfir þetta mál. Ég þekki það vel vegna þess að nefnd undir forustu hv. þm. Péturs Blöndals og hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur vann að því og var á endasprettinum þegar ég var heilbrigðisráðherra. Niðurstaðan varð eftir að nefndin var búin að skoða það vel að skynsemin fælist í því að taka allt. Af hverju? Það sem sannfærði mig mest var þegar til mín kom ung kona sem átti stutt eftir og útskýrði fyrir mér hvað gerðist þegar fólk væri langveikt. Það er erfitt að sjá fyrir nákvæmlega hvar heilbrigðiskostnaðurinn lendir. Jafnvel þó að ýmislegt hafi verið án endurgjalds fyrir sjúklinga er það mjög persónubundið hvaða þjónustu fólk þarf. Hv. þingmaður fór hér yfir rökin sem eru einfaldlega þau að við látum það fólk sem þarf sífellt á þjónustu að halda greiða minna og komast upp í ákveðið þak en við hin sem erum svo lánsöm að þurfa sjaldan á þjónustu að halda greiðum meira. Það er hugmyndafræðin en hættan er að við náum ekki þeim markmiðum ef við tökum bara einn þáttinn út.

Ég hef af þessu miklar áhyggjur og ég hef sömuleiðis áhyggjur af því að í þessum breytingum á reglugerðum og kostnaðarþátttöku að undanförnu falli ýmislegt milli skips og bryggju. Við hæstv. velferðarráðherra ræddum hér um daginn sjúkraþjálfun en hún hefur hækkað mjög í tíð þessarar ríkisstjórnar á eldri borgara og öryrkja sem eru með lægstu tekjurnar. Hún hækkar mun meira bæði í krónum talið og miklu meira hlutfallslega en á aðra. Það er auðvitað ekki undir þessu, þetta eru lyf, sjúkraþjálfun er ekki lyf.

Við ræddum aðeins áðan um heilsustefnuna. Hér var farið í hreyfiseðlana. Það verkefni var skilgreint í heilsustefnunni og ég vona að það fái framgang eins og hv. þingmaður nefndi en því miður var því ekki fylgt eftir á sínum tíma.

Varðandi komugjöldin held ég að hv. þingmenn verði að vera meðvitaðir um að fólk sem er á spítölum greiðir mikið ef það gistir yfir nótt. Þróunin í heilbrigðisþjónustunni hefur verið sú að við höfum verið að gera aðgerðir og annað slíkt bara yfir daginn og viðkomandi sjúklingur getur farið heim um kvöldið. Þá þarf hann að greiða, oft háar upphæðir. Ef hann liggur yfir nótt þarf hann ekki að greiða neitt, jafnvel fyrir sömu þjónustuna. Menn verða að vera meðvitaðir um að við erum að færa aukinn kostnað á þetta fólk sem er ekki yfir nótt. Það er það sem verið er að gera þegar menn taka upp komugjöld.

Hér var forstjóri Landspítalans um tíma, mjög hæfur forstjóri sem núna stýrir einum stærsta spítala í Noregi, sem benti mér á það sem heilbrigðisráðherra að við værum í algjörri sérstöðu í því að fólk gisti hér miklu meira á spítölum en í nágrannalöndunum. Það er meðal annars vegna þess að það er endurgjaldslaust þegar fólk dvelur yfir nótt en ekki ef það er einungis í dagþjónustu. Þetta hefur ekkert að gera með að þingmenn vilji vel, þeir eru bara að færa kostnaðinn á aðra sjúklinga svo það sé alveg skýrt. Það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn sem leggja þetta til séu meðvitaðir um að þeir eru að færa kostnað á sjúklinga sem eru ekki yfir nótt á viðkomandi sjúkrastofnun.

Þó að ég ætli ekki að mæla gegn hugmyndafræðinni í þessu frumvarpi, því að sjálfur beitti ég mér fyrir henni og því miður náði hún ekki í gegn, vara ég við því að taka út einstaka þætti, hvort sem það eru lyf, endurhæfing eða annað. Það er ansi hætt við að við náum ekki þeim markmiðum og ýmsir aðilar sem við viljum alls ekki að þurfi að greiða meira en nú er gætu lent í því ef við förum þessa leið.