140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

skattar og gjöld.

653. mál
[17:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargerðina. Við höfum tekið forskot á sæluna og þegar fengið kynningu á málinu á vettvangi efnahags- og viðskiptanefndar og ég sett það enn fremur á dagskrá þegar eftir helgina þannig að það takist að vinna fljótt og vel úr málinu. Í aðalatriðum er hér um að ræða gagnlegar úrbætur á ýmsum sviðum og verið að eyða vafaatriðum. Meðal annars er mikilvægt að breytingar sem leiða af gengislánadómum Hæstaréttar til ívilnunar fyrir skuldara leiði ekki til íþyngjandi hluta fyrir þá í skattkerfinu. Ýmislegt annað mætti þar nefna.

Athugasemdir hafa þó verið gerðar við 6. gr. frumvarpsins sem lúta að staðgreiðslu á fjármagnstekjuskatti. Farið verður yfir það í nefndinni. Sömuleiðis hefur gætt nokkurrar andstöðu við þá breytingu sem lýtur að því að gera auðlindagjöldin varanleg, það er sjálfsögð og þörf breyting að mínu áliti en það kann að vera að þá breytingu þyrfti að láta í lög festa á haustþingi komanda í tengslum við fjárlagagerðina fremur en nú á lokasprettinum.