140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[17:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna fyrir þessu ágæta þingmáli sem eins og hið fyrra hefur þegar verið lítillega til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd og verður aftur á dagskrá núna þegar eftir helgina. Þetta er eitt af forgangsmálum okkar hér í þinginu fyrir vorið. Ég þakka hæstv. ráðherra alveg sérstaklega fyrir frumkvæði hennar að því að ívilna í virðisaukaskatti innflutningi á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbílum. Það er auðvitað þannig um virðisaukaskattinn að oft eru margar góðar hugmyndir um hluti sem ættu að vera undanþegnir honum en við getum ekki haft tekjuöflun ríkissjóðs með þeim hætti að allir góðir hlutir skuli vera undanþegnir virðisaukaskatti og þess vegna er ákaflega mikilvægt að fara varlega í að fella undan virðisaukaskatti tilteknar vörur eða tiltekna þjónustu.

Það geta hins vegar verið rík þjóðhagsleg eða samfélagsleg sjónarmið fyrir því að slíkt eigi að gera og því er sannarlega til að dreifa hér. Fá framfaramál eru eins augljós fyrir land sem ríkt er af grænni orku eins og Ísland er og það að hraða orkuskiptum í samgöngum, bæði í bílaflotanum og síðar meir vonandi í skipaflotanum. Það er alveg ljóst að tæknin til þess ryður sér óðum til rúms en hún er enn nokkru dýrari en hin hefðbundna tækni og þess vegna fullkomlega forsvaranlegt, og miklu meira en það, að ríkið styðji við þessa þróun með því að gefa nokkuð eftir af tekjum sínum. Hagur okkar, samfélagsins alls, af þessum orkuskiptum er svo ótvíræður vegna þess að við framleiðum þá sjálf að minnsta kosti umtalsverðan hluta þeirrar orku sem farartækin eru keyrð á.

Tengiltvinnbílar eru bílar sem ganga fyrir bæði rafmagni og bensíni en er hægt að setja í samband við rafmagn og hlaða þannig að þeir séu fullhlaðnir þegar lagt er af stað og þess vegna geta mjög öflugar slíkar bifreiðar eytt ákaflega litlu jarðefnaeldsneyti en byggt þeim mun meira á raforku. Fyrir land sem framleiðir allt sitt rafmagn með umhverfisvænum hætti, úr vatnsföllunum okkar eða jarðhitanum, er þetta að mörgu leyti einhver besta lausnin sem við getum fengið í samgöngum. Þess vegna er full ástæða til að þakka ráðherranum fyrir þetta frumkvæði og fyrir að hafa sett málið á dagskrá og vera tilbúin til þess á erfiðum tímum að sjá af tekjum sem auðvitað gerir það að verkum að það verður erfiðara að brúa bilið í ríkissjóði.

Þegar ég nefni það atriði vekur raunar kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins í málinu nokkra athygli. Stundum er vikið að því að þar sé kostnaður síst vanmetinn alla jafna en ég vil leyfa mér að hafa efasemdir um að hann sé rétt metinn í þessu tilfelli og tel að hann sé raunar mjög vanmetinn í því að það er aðeins gert ráð fyrir því að örfáir tugir bifreiða af þessari tegund verði fluttir inn á næstu tveimur árum. Ég held að við séum að sjá viðurkennda alþjóðlega bílaframleiðendur skila vörum inn á markaðinn, bæði í ár og í upphafi næsta árs, sem gera megi ráð fyrir að verði seldar í umtalsvert meira magni en gert er ráð fyrir í kostnaðarumsögninni. Yfir það munum við náttúrlega fara í störfum nefndarinnar. Það má út af fyrir sig um það segja að það væri ekki annað en jákvætt ef sá liður er vanmetinn því að markmiðið er að hraða þessari þróun. Ef það gengur hraðar en kostnaðarumsögnin gerir ráð fyrir er ávinningurinn í því þess meiri fyrir þjóðarhag og ríkissjóð til lengri tíma litið.

Sá þáttur málsins sem lýtur að samkomulaginu við sveitarfélögin vekur hins vegar spurningar um stefnu okkar í þeim efnum, bæði gagnvart sveitarfélögunum og öðrum aðilum. Það hefur verið viðleitni til þess af hálfu ríkisins og fjárstýringarvaldsins í landinu að hverfa frá því að gefa í jafnríkum mæli eftir tekjur og gert var áður fyrr á mörgum sviðum en innheimta frekar tekjurnar og hafa tekjur af vörum og þjónustu en styrkja þá fremur verkefni með beinum fjárframlögum. Þannig er kostnaðurinn við slíkar ívilnanir sýnilegur, kemur fram á fjárlögum hvers árs og er þar opinn og aðgengilegur. Menn geta tekið um hann pólitískar ákvarðanir og þá eru ekki bara tilteknar vörur eða aðilar sérstaklega undanþegin.

Nú er hins vegar farin önnur leið gagnvart sveitarfélögunum og ég held að það veki aðallega spurningar um það hvort það sé stefnubreyting af hálfu ráðuneytisins og hvort menn muni í ríkara mæli horfa til þess að endurgreiða mönnum álagða skatta fremur en að innheimta skattana og hafa síðan styrki eða fjárframlög á gjaldahliðinni á móti.