140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

virðisaukaskattur.

666. mál
[17:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmanni fyrir framsögurnar. Ég held að þessir umhverfisvænu orkugjafar á bifreiðum séu gríðarlega spennandi. Þar væri æskilegt að við Íslendingar næðum góðum árangri og þá er ég viss um að við notuðum á mun stærri hluta bílaflotans orkugjafa sem eru framleiddir á Íslandi. Ég held að við eigum að setja okkur metnaðarfull markmið í því efni.

Ég leyfi mér að vona að kostnaðarmat fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sé rangt vegna þess að ég vonast til þess að mun fleiri svona bílar komi hingað. Ég er alveg sammála hv. þm. Helga Hjörvar í því að það er mikil þróun á þessu sviði hjá virtum bifreiðaframleiðendum en þó svo að alla jafna séu umsagnir fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins mjög góðar og algjörlega til fyrirmyndar held ég og vona að þetta verði meira. Eins og kom líka fram í máli hans eru góðu málin mjög mörg. Það er margt sem maður vildi sjá ódýrara og margt með langtum lægri sköttum. Gallinn er sá að ef við tökum skattinn af einum flokki hækkum við hann um leið á öðrum. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við förum að ræða hér einföldun á skattkerfi. Ég er 1. flutningsmaður um beiðni um skýrslu um einföldun skattkerfis. Ef hæstv. ráðherra kemur aftur upp væri gott að fá að vita hvað líður þeirri skýrslu, hún er komin yfir lögbundinn frest, þ.e. hún ætti að vera tilbúin núna, og ég held að hún væri góður grunnur að umræðu. Það skyldi þó ekki vera að þegar við tökum allar undanþágurnar og setjum eitt sameiginlegt skattþrep — síðan geta menn deilt um hversu hátt það á að vera — sjáum við hér mun lægri skattprósentu á allra handa nauðsynjavörum en er núna. Það gæti verið að þetta kerfi væri bæði skilvirkara og réttlátara og mundi leiða af sér ýmsa jákvæða þætti.

Í það minnsta verðum við að velta þessu fyrir okkur og fara málefnalega yfir þá hluti. Ég ætla ekki að mæla, alls ekki, gegn afslætti á virðisaukaskatti á þessum bifreiðum og öðrum góðum málum sem þarna eru inni en ég held að í leiðinni ættum við að skoða áhrif þess að einfalda skattkerfið og fækka og jafnvel afnema undanþágur en lækka þess í stað verulega skattprósentuna.