140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkrir þættir varðandi þetta mál sem ég náði ekki að koma inn á í ræðum mínum í gær og í fyrradag en finnst þó ástæða til að nefna við þessa umræðu. Í fyrsta lagi vil ég nefna að ég hef ekki náð að bregðast við því sem fullyrt er bæði í greinargerð með tillögunni sjálfri og eins hefur verið vísað til í þessari umræðu um reynsluna af þeim sameiningum sem þegar hafa átt sér stað. Ég vildi segja um það, hæstv. forseti, að þær fullyrðingar sem eru settar fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni eru að mínu mati afar hæpnar. Það er ýmislegt fullyrt um að reynslan af sameiningu dómsmálaráðuneytis og samgönguráðuneytis í innanríkisráðuneyti og heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis í velferðarráðuneyti sé góð. Ég ætla ekki að fullyrða að reynslan sé slæm en ég held hins vegar að rökin sem færð eru fyrir því að reynslan sé góð séu harla veik.

Einu skýrslurnar sem vitnað er til í þessu sambandi eru skýrslur Ríkisendurskoðunar sem stofnunin skilaði af sér rétt rúmum mánuði eftir að sameiningin átti sér stað, þ.e. í febrúar 2011. Reynslan af sameiningu þessara ráðuneyta var ekki komin fram þegar skýrslur Ríkisendurskoðunar voru lagðar fram þannig að Ríkisendurskoðun var raunverulega aðeins að meta áætlanir og verkþætti í sambandi við undirbúninginn. Afraksturinn, hver reynslan er, hvort þessar breytingar hafi orðið til að styrkja ráðuneytin, efla þau, bæta þjónustu í þeim málaflokkum sem undir þau heyra, á eftir að koma í ljós. Það á eftir að fara yfir það, það á eftir að rannsaka það og meta.

Þetta vildi ég taka fram í þessari umræðu vegna þess að því hefur verið haldið fram að við getum byggt á góðri reynslu. Við getum vissulega lært af reynslunni, við getum lært af áætlanagerðinni sem fékk góða einkunn hjá Ríkisendurskoðun en það að leggja mat á hinn faglega og hinn fjárhagslega ávinning af sameiningu þessara ráðuneyta sem átti sér stað í ársbyrjun 2011 er enn ógert, það á enn þá eftir að fara yfir það, það á enn eftir að meta það. Þá er því sjónarmiði haldið til haga. Þó að vissulega sé hægt að horfa á vinnulagið við áætlanagerð og undirbúning sameiningarinnar frá þessum tíma og er sjálfsagt að gera það komi til þeirrar sameiningar sem hér er gert ráð fyrir er ekki hægt að fullyrða eins og gert hefur verið í þessu máli að reynslan af þessum sameiningum sé góð. Satt að segja, án þess að ég hafi fyrir framan mig neinar vísindalegar greiningar eða fræðilegar úttektir á reynslunni í þessum efnum hugsa ég að hún sé mismunandi. Ég hugsa að sumt hafi reynst ágætlega í þessu en ég hugsa líka að annað hafi reynst miður. Sjálfur hef ég enn þá efasemdir um að það skref sem stigið var með lagabreytingunni 2010 og kom fram í þeirri sameiningu sem átti sér stað í ársbyrjun 2011 hafi verið rétt.

Ég held hins vegar að breytingum af þessu tagi verði að gefa ákveðinn tíma ef þær á annað borð eiga sér stað þannig að unnt sé að meta árangurinn og hvað út úr þeim kemur.

Ég hugsa að við séum kannski fyrst núna að átta okkur á því almennilega hvernig reynslan var af sameiningu landbúnaðarráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis árið 2007. Ég hugsa að við mundum ekki í ljósi þeirrar reynslu hverfa til baka en hins vegar held ég að reynslan í þeim efnum sýni að það tekur mjög langan tíma fyrir mismunandi ráðuneyti, mismunandi stofnanir með mismunandi verksvið og jafnvel ólíka menningu ef við orðum það svo, (Forseti hringir.) að sameinast. Það er ekkert áhlaupsverk, ekki eitthvað sem menn bjarga sér í gegnum á þremur, fjórum mánuðum, hæstv. forseti.