140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðuna. Væntanlega þekkja fáir þingmenn á þessu þingi betur til breytinga sem hafa verið gerðar á Stjórnarráðinu á þessu kjörtímabili en einmitt hann. Það sem ég hefði hins vegar áhuga á að heyra frá þingmanninum er að ef flokkur hans kemst í meiri hluta eftir næstu kosningar og hefur þá möguleika á því að hafa meiri áhrif en flokkur hans hefur nú varðandi stefnumál á þingi, telur hann að Sjálfstæðisflokkurinn muni berjast fyrir því að afnema þær lagabreytingar sem hafa verið gerðar? Er hv. þingmaður kannski sammála túlkun forsætisráðherra um að þetta vald eigi fyrst og fremst að vera hjá ríkisstjórn hvers tíma, framkvæmdarvaldinu? Hvenær telur hann þá sé best að fara í breytingar á Stjórnarráðinu?