140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sýn mín og hv. þingmanns og kollega míns Illuga Gunnarssonar er sennilega ekki alveg nákvæmlega sú sama og hv. þingmaður (Gripið fram í.) vekur athygli á. Kann það að stafa af því að hv. þm. Illugi Gunnarsson átti nokkurra ára starfsferil innan veggja Stjórnarráðsins en ekki ég sem horfi frekar á þetta frá sjónarmiði þingsins. Ég er þeirrar skoðunar og hef styrkst í henni frekar en hitt að meginlínur í þessum efnum eigi að vera ákveðnar með lögum frá Alþingi. Ég hef styrkst í þeirri skoðun eftir því sem árin hafa liðið.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns að í fyrri ríkisstjórnum, bæði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og raunar einnig í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007–2009 voru sjónarmið af þessu tagi uppi og þetta var meðal annars nefnt við umræður sem áttu sér stað í þinginu 2007 þegar breytingar voru gerðar, en það var hins vegar ekki stigið stórt skref í þá átt að færa til framkvæmdarvaldsins það vald að setja á fót eða leggja niður ráðuneyti heldur var því í stórum dráttum haldið hjá þinginu þó að það væri aukið svigrúm á ýmsan hátt hvað þetta varðar. Eftir sem áður var valdið til að stofna ný ráðuneyti og leggja þau niður hjá þinginu. Þó að önnur sjónarmið hafi verið uppi varð þetta niðurstaðan í þeim breytingum sem áttu sér stað 2007 og ég átti meðal annars þátt í að styðja.

Varðandi aðra þætti þessa máls sem hv. þingmaður spyr um, m.a. um afstöðu forsætisráðherra, tel ég að (Forseti hringir.) það sé hvort tveggja innan ramma stjórnarskrárinnar að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) skipti sjálf með sér verkum eða að þingið ákveði það með lögum. Ég held að báðar þær aðferðir séu samrýmanlegar 15. gr. stjórnarskrárinnar.