140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af þessu má ef til vill álykta sem svo að hæstv. núverandi efnahagsráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra hafi loksins náð fram vilja sínum hvað varðar þennan þátt breytinga á skipan ráðuneyta. Það er óneitanlega svolítið sérstakt, eins og við höfum rætt fyrr í dag, ef þetta er í samræmi við vilja Evrópusambandsins því að þá dregur hæstv. efnahagsráðherra í rauninni vagninn hvað varðar Evrópusambandsumsóknina frekar en hæstv. forsætisráðherra. Það kann að vera að hæstv. forsætisráðherra hafi einfaldlega ekki gert sér grein fyrir því hver vilji ESB væri í málinu, alla vega ekki þegar stjórnarsáttmálinn var undirritaður og eins þegar hún var spurð um þetta mál í þinginu í desember sl. En hæstv. efnahagsráðherra (Forseti hringir.) virðist hafa áttað sig á því og verið til taks til að gera nauðsynlegar breytingar.