140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:50]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég var orðinn hálfringlaður að hlusta á ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar áðan, þ.e. um það hvaða skoðun hann hefði í málinu almennt séð. Hv. þingmaður nefndi að þetta væru tímabundnar breytingar sem yrði kippt í liðinn aftur að loknum kosningum eftir ár, væntanlega þá ef skipt yrði um ríkisstjórn. Hv. þingmaður taldi að það væri ekki sérstaklega góður árangur af þeim sameiningum sem hefðu þegar verið í ráðuneytunum, þær væru dýrar og ómarkvissar og hefðu ekki skilað nógu góðu. Svo voru fabúleringar og samsæriskenningar um byltingarstjórnir, ESB-aðkomu og allt þetta.

Í blálok ræðu sinnar sagðist hann vilja að þingið sameinaðist um breytingar. Hvaða álit hefur hv. þingmaður á því að rétt sé að fækka ráðuneytum og gera stjórnsýsluna skilvirkari? Er þingmaðurinn þeirrar skoðunar að þetta sé í dag (Forseti hringir.) eins og það á að vera eða vill hann gera einhverjar aðrar breytingar?