140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samsæriskenningin sem ég var að vitna til og hv. þingmaður nefndi áðan sneri fyrst og fremst að ráðherra ríkisstjórnarinnar. Hann taldi sig hafa séð allt í einu færi á því að draga ESB-vagninn óvart fram hjá forsætisráðherra. Samsæriskenningin var í þá veru. Ég geri hins vegar lítið með þetta ævintýralega tal um aðlögun stjórnsýslunnar að kröfu Evrópusambandsins og tel það hálfgerðar málfundaæfingar hjá þingmanninum þó að ég viti að fleiri hafi litið þetta alvarlegri augum.

Hvaða álit hefur þingmaðurinn á þeim sameiningum sem þegar hafa verið gerðar og fækkun ráðuneyta á undanförnum árum og áratugum? Það hafa verið gerðar ýmsar breytingar. Ég nefni til dæmis sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytið sem varð að velferðarráðuneyti. Telur þingmaðurinn að fara eigi til baka með þessar breytingar? Á að skipta ráðuneytunum upp aftur og hvað á þá að fara langt aftur í tímann? Hvenær var þetta í því formi að mati þingmannsins að einhverri stjórnsýslulegri fullnægingu hefði verið náð?