140. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna fyrri athugasemda hv. þingmanns er líklega rétt og sanngjarnt að ég taki fram að það kann vel að vera að afstaða hæstv. efnahagsráðherra varðandi sameiningu ráðuneyta hafi af einskærri tilviljun farið saman við vilja Evrópusambandsins. Það má vel vera að sú sé raunin, að hæstv. efnahagsráðherra hafi metið það svo að þetta væri skynsamlegasta fyrirkomulagið, þó að hæstv. forsætisráðherra hafi verið annarrar skoðunar, og það sé tilviljun ein að Evrópusambandið sé sömu skoðunar. Það getur vel verið. Þá er það eingöngu tilviljanakennt að vagninn hafi að einhverju leyti verið dreginn af hæstv. efnahagsráðherra.

Hvað varðar þær sameiningar sem átt hafa sér stað er byrjuð að koma reynsla á þær eins og varðandi velferðarráðuneytið. Að sumu leyti kann það að hafa gefist vel en á því eru ýmsir gallar. Velferðarráðuneytið held ég að hafi sýnt sig sem (Forseti hringir.) allt of stórt ráðuneyti og þungt í vöfum þannig að það kann vel að vera að það ætti að skipta því upp að einhverju leyti aftur.