140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

stjórnarfrumvörp til afgreiðslu.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að staðan í málum á Alþingi miðað við það sem eftir lifir af starfsáætlun þingsins, sem auðvitað má vel framlengja, sé ekki óvanaleg miðað við stöðu fyrri þinga, bæði varðandi málafjölda þar sem ekki er óalgengt að séu 50–70 mál óafgreidd þrem vikum fyrir þinghlé og líka varðandi þau mál sem þarf að afgreiða. Ég viðurkenni vel að mörg þeirra eru stór eins og stjórnarskrármálið. Það er stórt mál en það hefur líka verið í þeim farvegi að sjálfstæðismenn hafa séð til þess raunverulega í þrjú ár að tefja (VigH: Rangt.) það og við hefðum fyrir löngu (Gripið fram í.) getað verið búin að afgreiða það ef sjálfstæðismenn hefðu virt það að það er meiri hluti á þinginu fyrir því. (Gripið fram í.) Við erum komin í nokkra tímaþröng með það mál en orðið mjög brýnt að afgreiða það.

Önnur stór mál eru rammaáætlun og sjávarútvegsmálin. Það er ekkert óeðlilegt að það séu skiptar skoðanir um þau, bæði innan þings og utan, og það birtist í þeim umsögnum sem fram hafa komið. Ég tel þó að ef þingmenn vinna vel á þeim tíma sem eftir lifir af þessari starfsáætlun ættum við að komast nokkuð langt með þessi mál. Ef ekki er eilíft málþóf í öllum málum (Gripið fram í.) munum við auðvitað komast áfram og klára þessi mál á starfsáætlun. Ef ekki þurfum við að taka málin upp að nýju og skoða það að ná samkomulagi um að framlengja þingið þannig að við getum klárað þessi stóru mál.

Varðandi það sem þingmaðurinn nefndi sérstaklega um flýtimeðferð í dómsmálum, og er þá væntanlega að meina gengislánin, hefði það engu breytt þó að frumvarp sjálfstæðismanna hefði náð fram að ganga (Forseti hringir.) í því efni. Það hafa komið fram skýringar á því af hverju það mál hefur tafist.