140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

stjórnarfrumvörp til afgreiðslu.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tel að nokkuð vel hafi verið unnið í sjávarútvegsmálunum, haldnir 14 fundir og þau eru á lokastigi. Það eru vissulega skiptar skoðanir um þau, en þær forsendur sem hefur verið lagt upp með í ýmsum útreikningum sem hafa komið fram hafa ekki staðist. (Gripið fram í.) Menn eru bara að vinna með það. Þegar verið er að tala um að þetta hafi þau áhrif að sjávarútvegsfyrirtæki muni fara á höfuðið munum við auðvitað ganga þannig frá þessum málum að allir geti vel við unað. Við skulum líka muna að 40–50% af kvótahöfum voru í mjög slæmri og erfiðri stöðu fyrir hrun.

Þegar sagt er að rammaáætlunin þýði að fjárfestingar upp á 200 milljarða kr. tefjist, eitthvað slíkt, (VigH: 270.) er alveg ljóst að gefnar forsendur eru rangar. Hér gefa menn sér að það sem sett er í bið í þessum málum verði í bið (Forseti hringir.) um aldur og ævi. Auðvitað verða menn að tala um málin út frá réttum forsendum.