140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

Grímsstaðir á Fjöllum.

[10:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Annars vegar er um að ræða spurningu sem hv. þingmaður setur fram og hins vegar vangaveltur af hans hálfu um málefni sem eðlilegt er að sé rætt á Alþingi og menn láti til sín taka. Þannig kem ég að þessu máli, bæði sem ráðherra og sem þingmaður sem tekur þátt í almennri umræðu um stefnumótun í þessu efni. Ég kom að þessu sem innanríkisráðherra upphaflega þegar um var að ræða tilboð til kaupa á landi.

Samkvæmt þeim lögum sem ég studdist þá við segir einnig að leiga á landi lengur en í þrjú ár skuli koma til umfjöllunar í innanríkisráðuneyti en við höfum síðan einnig lög sem veita undanþágu frá þessum ákvæðum. Það er á forsendum þeirra laga sem málið er nú til skoðunar. Ég hef mjög ríkar skoðanir á þessu máli og hef mjög miklar efasemdir um það sem þarna er að gerast en að sjálfsögðu einskorðast athafnir mínar við þau lög sem ég styðst við, þá sem ráðherra sveitarstjórnarmála. Þá mundi ég horfa til skuldastöðu sveitarfélaganna. Þar kemur málið inn á okkar vettvang í innanríkisráðuneytinu.

Það liggur enginn samningur fyrir, enginn samningur hefur verið kynntur í ríkisstjórn. Það eru náttúrlega næstu skref sem þarf að horfa til, þau hafa ekki verið stigin. Ég tek undir það almenna sjónarmið með hv. þingmanni að við eigum að vera afar varfærin í þessum efnum og þar hef ég meira en litlar efasemdir sjálfur eins og fram hefur komið á opinberum vettvangi.