140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

Grímsstaðir á Fjöllum.

[10:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Samkvæmt fréttum horfum við nú upp á kínversk stjórnvöld moka hundruðum milljóna króna í sjóði íslenskra sveitarfélaga, annars stjórnsýslustigsins í landinu. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi af því:

Verður ekki með hraði að koma á löggjöf sem kemur í veg fyrir að þetta geti gerst? Er ekki jafnvel í framhaldinu nauðsynlegt að takmarka völd sveitarstjórnarstigins enn frekar? Það er verið að tala um að færa frekari verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Við höfum sögu sveitarfélaga undanfarinna ára þar sem tugir þeirra eru orðin gjaldþrota vegna alls kyns háttsemi og brasks. Við sjáum braskið með Hitaveitu Suðurnesja og hvernig Ross Beaty komst upp með að stofna sænskt skúffufyrirtæki til að komast yfir þá auðlind. Við höfum allt það sem gerst hefur með Orkuveitu Reykjavíkur. (Forseti hringir.)

Ég hvet hæstv. ráðherra til að lýsa því yfir að hann muni í framhaldinu af þessu taka til endurskoðunar lög um sveitarstjórnir á Íslandi. (Gripið fram í.)