140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

Grímsstaðir á Fjöllum.

[10:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Engum milljónum, hvað þá hundruðum milljóna, hefur verið mokað í sveitarsjóði. Ekkert slíkt hafa Kínverjarnir gert. Við höfum hins vegar spurnir af því að samningar séu í bígerð og við viljum sjá hvað þar hangir á spýtunni.

Varðandi almennar vangaveltur hv. þingmanns um mikilvægi þess að við verjum auðlindir okkar gagnvart fjármagni, hvort sem það er innlent eða erlent, tek ég undir þau sjónarmið. Við eigum þar að vera á varðbergi og við eigum að sjálfsögðu að taka til endurskoðunar löggjöf sem snýr að eignarhaldi á landi. Við eigum að sjá til þess að það haldist, hvort sem er eignarhaldið eða afnotaréttur af landi eða auðlindum innan okkar samfélags. Það tel ég grundvallaratriði og undir það sjónarmið tek ég.