140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umsagnir um rammaáætlun.

[11:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur ítrekað komið fram að það er ekki hægt að gera orkusamninga vegna þess að virkjunarkostir hafa ekki legið fyrir eða ákvarðanir um að nýta þá. Hæstv. ráðherra segir að það sé gengið út frá fjögurra ára bið í þessari skýrslu. Það er það sem hæstv. umhverfisráðherra staðfesti í ræðu sinni, að þetta mundi þýða fjögurra ára töf, þannig að það er í fullu samræmi. Niðurstöður þeirra byggja á framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar sem liggur fyrir í þeirri skýrslu sem þeir kynntu í maí í fyrra, fyrir ári. Þar er framkvæmdaröðin tilgreind algjörlega og það er auðvitað gengið út frá því að fara að nýta þá virkjunarkosti sem eru tilbúnir til framkvæmda eins og í neðri hluta Þjórsár. Þessir virkjunarkostir eru núna settir í bið og þess vegna eru þessar tafir reiknaðar svona út. Þessi málflutningur stenst því ekki skoðun. Það að Landsvirkjun geti ekki selt er í algjöru ósamræmi við þær upplýsingar sem við fáum frá Íslandsstofu, Landsvirkjun og öðrum þeim sem fjalla um þessi mál gagnvart áhugasömum (Forseti hringir.) erlendum kaupendum.

Ég ítreka aftur spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hyggst ráðherrann bregðast við ef þetta er rétt mál (Forseti hringir.) sem hér er farið með sem byggist á niðurstöðum þeirra fyrirtækja sem um ræðir? Megum við vænta þess (Forseti hringir.) að sjá einhverjar breytingar frá hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra á þessari tillögu sem er svo skaðleg?