140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[11:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er enn verið að bæta á dagskrá þingsins málum sem koma of seint fram. Þau bætast við þau mál sem komu í einni kippu síðasta dag sem hægt var að leggja fram mál í þinginu. Á þeim degi hygg ég reyndar að sett hafi verið met í að koma seint fram með mál, þ.e. hversu mörg mál komu fram, og enn bætist við þann stabba.

Ég vil hins vegar fullvissa stjórnarþingmenn um að við munum að sjálfsögðu greiða fyrir þessum afbrigðum, þ.e. að þessi mál geti komist inn með þeim hætti sem þau þurfa að komast þannig að það liggi fyrir. Það er samt mikilvægt að taka það fram til að það komist til skila að enn kemur ríkisstjórnin fram með mál sem væntanlega munu bætast við þann langa lista sem ríkisstjórnin óskar eftir að verði kláruð á þeim örfáu dögum sem eftir eru.

Ég hlýt því að velta því upp, frú forseti, (Forseti hringir.) að það er mjög mikilvægt að stjórnarflokkarnir fari að forgangsraða hverju þeir vilja ljúka hér.