140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[11:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég hlýt að gagnrýna þá verkstjórn sem er í gangi hjá hæstv. ríkisstjórn. Hún kemur með mál allt of seint fram, meira að segja eftir að þeim fresti er lokið sem menn mega koma fram með mál. Þetta eru risavaxin mál. Þegar hv. þingmenn, aðallega í stjórnarandstöðunni, leyfa sér svo að ræða þessi mál er það kallað málþóf, málþóf vegna þess að málin koma allt of seint fram.

Mér er skapi næst að greiða atkvæði gegn þessum málum. Hins vegar hef ég samúð með ríkisstjórninni þegar hún er komin í þessa stöðu og mun greiða atkvæði með þessu en þetta eru ólíðandi vinnubrögð og ég vil ekki heyra að menn tali um málþóf þegar við reynum að ræða málin, aðallega stjórnarandstæðingar. Hv. stjórnarliðar taka yfirleitt ekki þátt í þessum umræðum.