140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[11:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það þarf kannski að gefa smátíma meðan verið er að rýma salinn, það er ekki það merkilegt mál sem á að ræða hér.

Óhætt er að segja að í árslok 2010 þegar ríkissjóður þurfti að leggja 33 milljarða inn í Íbúðalánasjóð hafi þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar sú ákvörðun var tekin ekki verið nægjanlega góðar og það er ekki til eftirbreytni. Þetta gerðist á síðustu dögum ársins og það væri forvitnilegt að fá upplýsingar um það hvernig þeim fjármunum hefur verið ráðstafað, þ.e. hvernig þeir voru nýttir. Þess vegna er mjög mikilvægt að þingið sé tímanlega upplýst ef það er þörf fyrir aukið eiginfjárframlag eða ríkisframlag í Íbúðalánasjóð hugsanlega á árinu 2012.

Í svari frá Íbúðalánasjóði til hv. fjárlaganefndar hefur komið fram að þörf sé á því að auka framlag ríkissjóðs til Íbúðalánasjóð og í raun og veru hafi þær viðræður verið teknar upp í árslok 2011. Það kemur fram í þessu svari að ítrekað hafi verið gengið á velferðarráðuneytið um að svara því hvenær til standi að verða við þessari beiðni en ekki koma fram upplýsingar um hvaða fjárhæðir um er að ræða. Því spyr ég hæstv. velferðarráðherra hvort hann hafi upplýsingar um það og megi þá svara því í þessu tilfelli um hvaða upphæðir er að ræða á árinu 2012. Það vekur líka athygli mína að þetta kemur ekki fram í veikleikamatinu sem við vorum að funda um í gær í framkvæmd fjárlaga 2012.

Það hefur komið fram í umræðunni að nú hafa margir tekið lán hjá fjármálastofnunum, bönkunum, sem eru þá með óverðtryggðum vöxtum og hafa á sama tíma greitt upp lán hjá Íbúðalánasjóði. Er hæstv. ráðherra kunnugt um að þetta hafi einhver áhrif á sjóðinn, og þá hver? Það gengur, eins og allir vita, mjög illa að fá eðlilega ávöxtun á fjármagn.

Síðan langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra um það sem snýr að svokölluðum leigumarkaði. Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið mjög mörg leigufélög vítt og breitt um landið og situr uppi með þau. Hugsanlega er eitthvað í samkeppnislögum sem hamlar Íbúðalánasjóði að fara með þessar íbúðir út á leigumarkað þó að sannarlega sé þörf fyrir þær í allmörgum sveitarfélögum eða landshlutum.

Hefur hæstv. ráðherra upplýsingar um það hversu mörg leigufélög Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið á undanförnum árum og þá hugsanlega hvað það eru miklar fjárhæðir?

Síðan er aðalspurningin: Hvernig er hægt að höggva á hnútinn? Mínar upplýsingar segja, eins og ég sagði áðan, að Íbúðalánasjóður óttist hugsanlega að skekkja leigumarkaðinn vegna meintra samkeppnissjónarmiða sem í sumum tilfellum, a.m.k. þar sem ég þekki til, er mjög sérkennilegt vegna þess að á því svæði sem ég þekki vel til er sveitarfélagið eini samkeppnisaðilinn við Íbúðalánasjóð á leigumarkaði. Í mörgum tilfellum, til að mynda þar, óskar sveitarfélagið eftir því að taka leiguíbúðir frá Íbúðalánasjóði þannig að það er mjög hæpið að hægt sé að halda því fram að það muni skekkja samkeppnisstöðuna.

Getur Íbúðalánasjóður hugsanlega fengið leiðbeiningar frá Samkeppniseftirlitinu um hversu stórt hlutfall eigna hans hann megi leigja í landshlutum eða jafnvel einstaka sveitarfélögum þannig að þessu yrði rutt úr vegi?

Það er víða gríðarlega mikil þörf, úti á landsbyggðinni sérstaklega sem ég þekki til, fyrir þetta húsnæði og því spyr ég hæstv. ráðherra: Hyggst hæstv. ráðherra beita sér í að finna lausn á því að Íbúðalánasjóður geti leigt stærri hluta eigna sinna þar sem ljóst er að mikil þörf er á leiguhúsnæði víða á landinu? Auðvitað er niðurstaðan sú, eins og allir vita, að allir tapa á þessu. Ríkissjóður tapar vegna þess að ef Íbúðalánasjóður má ekki leigja eignirnar vegna samkeppnissjónarmiða og þær standa auðar þar sem er klárlega þörf fyrir þær stendur það í vegi fyrir því að hægt sé að ráða fólk til atvinnu á viðkomandi svæðum í núverandi atvinnustigi. Það er mjög mikilvægt og þess vegna óska ég eftir því að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum.