140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[11:34]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir að vekja máls á stöðu Íbúðalánasjóðs og leigumarkaðnum. Ég tel afar mikilvægt að fá tækifæri til að fara yfir stöðuna og fá líka að heyra frá öðrum um stöðu og hlutverk Íbúðalánasjóðs.

Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvort ríkissjóður þurfi að leggja Íbúðalánasjóði til fjármagn á þessu ári í ljósi stöðu ríkisfjármála og umræðunnar um eiginfjárhlutfall. Gert er ráð fyrir að Íbúðalánasjóður hafi það sem langtímamarkmið og það yrði bundið í reglugerð sem sett hefur verið um sjóðinn að halda eiginfjárhlutfalli yfir 5%. Ég ítreka að þarna er um langtímamarkmið að ræða, við erum að fara í gegnum mikinn ólgusjó í íslensku fjármálalífi og þá er kannski eðlilegt að eiginfjárhlutfallið sé um tíma lægra. Það er mat Íbúðalánasjóðs að þeir fjármunir sem þegar hafa verið lagðir til hliðar vegna væntra afskrifta komi einungis til með að duga fyrir útlánatöpum sem gert er ráð fyrir. Þannig munu þeir fjármunir ekki nýtast til að hækka eiginfjárhlutfallið og svarar það í sjálfu sér spurningunni. Þegar farið var út í að setja 33 milljarða inn í sjóðinn átti það að hluta til að vera til þess að fjármagna 110%-leiðina, í öðru lagi til að mæta afskriftum í sjóðnum og í þriðja lagi til að styrkja eiginfjárhlutfallið. Það hefur komið í ljós að afskriftir í sjóðnum eru meiri og sérstaklega út af lögaðilum sem hafa verið í sjóðnum með stóru leigufélögin og byggingarverktökunum.

Um síðustu áramót var eiginfjárhlutfall sjóðsins rúmlega 2%, ég held að það hafi verið 2,3%. Áætlanir liggja ekki fyrir um það enn þá hvenær unnt verði að ná eiginfjárhlutfallinu upp í 5% en rúmlega 10 milljarða þarf að óbreyttu til þess að því markmiði verði náð. Hins vegar er ljóst að stefnt er að því að ná markmiðinu og verður að leita leiða í þeim efnum. Sem einn liður í því kann að vera að fá framlög úr ríkissjóði en eins og ég segi hefur engin ákvörðun verið tekin í því efni. Við mat á því hvort skynsamlegt sé að ríkissjóður leggi sjóðnum til aukið fé þarf að líta til ýmissa atriða og í því sambandi ber að nefna að það er mat Íbúðalánasjóðs að óvissa um hvort eiginfjárhlutfallið náist upp í 5% geti leitt til þess að lánshæfismat sjóðsins lækki og slíkt geti þá aftur haft áhrif á lánakjör sjóðsins. Það er mikilvægt að fjalla um þennan þátt og afgreiða hann sem stjórnin mun líka gera.

Varðandi uppgreiðslu lána stendur Íbúðalánasjóður frammi fyrir því að það sem af er ársins 2012 hefur það gerst í fyrsta sinn í mörg ár að uppgreiðslur lána eru meiri en útlán sjóðsins. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins nam mismunurinn 1,3 milljörðum. Þarna gætu menn hugsað með sér að fasteignamarkaðurinn væri farinn að glæðast enda þótt þetta séu ekki góðar fréttir í sjálfu sér fyrir sjóðinn. Við fyrstu sýn virðist þó ástæðan vera sú að lántakendur séu að endurfjármagna lán sín og greiða þar með lán sín hjá Íbúðalánasjóði upp eins og hefur svo sem gerst áður og þá kannski taka óbreytt óverðtryggð lán sem í boði eru. Eitthvað er um að fólk sé að greiða upp lánin með sparnaði sínum og eflaust einhver dæmi þess að fólk selji fasteignir sínar án þess að taka aftur lán hjá sjóðnum fyrir nýrri eign. Þá þarf að líta til þess að útlán sjóðsins hafa að auki dregist saman þannig að núna er verið að greiða upp meira en lánað er út. Það er fylgst mjög náið með þróuninni og í hvað stefnir, hvaða áhrif ný framboð íbúðalána hjá almennu bönkunum hafa á Íbúðalánasjóð.

Það liggur fyrir að Íbúðalánasjóður hefur eignast, af því að við vorum að ræða um leigufélögin, á annað þúsund fasteignir frá október 2008. Eignasafn sjóðsins hefur stækkað mikið á stuttum tíma og hefur mikill tími farið í að meta ástand þess. Eignirnar eru dreifðar um landið og eru af öllum stærðum og gerðum. Þar á meðal eru fasteignir um 12–14 leigufélaga á landsbyggðinni. Fasteignir þeirra eru metnar á um 5 milljarða kr. Samtals hefur Íbúðalánasjóður leyst til sín fasteignir fyrir um það bil 15 milljarða kr. að undanskildum fasteignum um 20 verktakafyrirtækja á landsbyggðinni en verðmæti þeirra eigna liggur ekki fyrir. Síðan eru til viðbótar verktakar sem eru í vandræðum.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um að nauðsynlegt sé að byggja upp traustan leigumarkað og tryggja möguleika fólks á að leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Ég get vonandi komið betur inn á það í seinna svari mínu. Nú þegar eru 800 íbúðir í leigu og það hefur legið fyrir að það er óskað eftir því að Íbúðalánasjóði verði heimilt að stofna leigufélag utan um þessar eignir og við getum farið betur í seinni hlutanum yfir þá stefnu sem Íbúðalánasjóður hefur, svo sem að vera ekki með yfir 30% af markaðshlutdeild á ákveðnum svæðum varðandi framboð á leiguíbúðum. Það þarf að taka upp það sem hv. þingmaður benti á, viðræður við Samkeppniseftirlitið til að tryggja að hægt sé að fara út fyrir (Forseti hringir.) þessi mörk á ákveðnum svæðum.