140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

málefni Íbúðalánasjóðs.

[11:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að fá tækifæri til að tjá sig tvisvar um þetta stóra mál. Sá þáttur sem ég held að við öll höfum sérstaklega áhyggjur af er fjárhagsstaða sjóðsins. Nokkrir þingmenn hafa komið inn á það hversu einkennileg staðan er, að það ógni tilveru sjóðsins að fólk borgi upp lánin sín og dragi þar með úr skuldabyrði einstakra heimila. Það virðist jafnvel líka að einhverju leyti ógna tilveru sjóðsins að við leggjum áherslu á að fjölga búsetukostum. Þá greiðir fólk væntanlega upp lánin sín á séreigninni, fer út á leigumarkaðinn og tekur þá ekki önnur lán í staðinn. Þetta er það sem gerðist fyrir hrun, þegar fjármálafyrirtækin fóru af mikilli hörku inn á húsnæðismarkaðinn varð mjög mikið um uppgreiðslur hjá sjóðnum. Stór hluti af því tapi sem varð hjá sjóðnum í framhaldinu tengdist því hvað hann neyddist til að gera til þess að festa upp á nýtt það fé sem streymdi inn í sjóðinn.

Þetta er ein ástæðan fyrir því að ég hef mikið verið að velta fyrir mér danskri húsnæðislöggjöf þar sem gullna reglan er svokölluð jafnvægisregla, að það sé alltaf jafnvægi á milli annars vegar íbúðabréfsins sem er gefið út til að fjármagna lánið og hins vegar lánsins til íbúðareigandans sjálfs. Það verður alltaf að vera fullkomin speglun þarna á milli. Þeir sem lána taka bara smáþóknun á milli. Þetta þarf ekki bara að gilda fyrir Íbúðalánasjóð heldur alla þá sem veita lán til húsnæðiskaupa. Þetta skekkti virkilega stöðuna hjá öðrum fjármálafyrirtækjum, öðrum bönkum, (Forseti hringir.) og þess vegna ítreka ég það sem ég hef áður rætt við hæstv. velferðarráðherra, mikilvægi þess að hér komi inn frumvarp um almenna löggjöf (Forseti hringir.) fyrir þá sem veita lán til fasteignakaupa.