140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:15]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ég vil sérstaklega taka undir áhyggjur hans af því að ekki eigi að blanda Alþingi inn í þetta mál eða leyfa Alþingi að koma að því. Það liggur ljóst fyrir að frá því að ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur fór fyrst að hringla í Stjórnarráðinu, í upphafi þessa kjörtímabils, hefur Alþingi á öllum stigum gripið inn í málið og breytt því. Allar breytingarnar hafa endurspeglað vilja þingmanna og þingheims til að hafa áhrif á það hvernig Stjórnarráðið er skipað, hver er skipan ráðuneyta o.s.frv.

Það að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og stofna atvinnuvegaráðuneytið og auðlindaráðuneytið var tekið út úr tillögum sem komu frá hæstv. forsætisráðherra. Þá kom hæstv. forsætisráðherra með frumvarp þess efnis að ekki þyrfti að ráðfæra sig við þingið um þessi mál, forsætisráðherra gæti bara hringlað í þessu eftir atvikum og allir ráðherrar heyrðu óbeint undir hennar vald. Alþingi ákvað að gera þá breytingu að þingsályktunartillaga yrði að koma fram og ekki væri hægt að breyta skipan Stjórnarráðsins nema þingsályktunartillaga yrði lögð fyrir þingið.

Nú horfum við upp á þessa þingsályktunartillögu sem töluvert mikil andstaða er við — í það minnsta tveir þingmenn stjórnarliðsins og fyrrverandi hæstv. ráðherrar hafa lýst andstöðu við hana — og langar mig því að spyrja hv. þingmann, af því að ég veit að hún á sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hvort það hafi ekki vakið furðu hjá hv. þingmanni að þetta mál, í ljósi andstöðunnar og í ljósi þeirrar miklu umræðu sem varð við fyrri umr., skuli ekki hafa fengið eðlilega, þinglega meðferð, þ.e. að málið skuli ekki hafa farið út til umsagnar í tvær vikur eins og gengur og gerist þar sem hagsmunaaðilum og fleirum gefst tækifæri til að segja skoðun sína.

Telur hv. þingmaður að þetta sé í samræmi við það sem fjallað var um þegar þessi krafa var (Forseti hringir.) sett inn í lögin á sínum tíma, að það yrði að koma fram með þingsályktunartillögu?