140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra kom mjög seint fram með þetta mál eins og fjöldamörg önnur sem komið hafa frá ríkisstjórninni, þeim var hent inn í þingið á síðustu dögum fyrir páskaleyfi, þannig að í raun var þeim ekki gefinn nægilegur tími í þinginu til að þau gætu fengið eðlilega þinglega meðferð.

Hæstv. forsætisráðherra sagði svo í síðustu viku að það væri alvanalegt hjá Alþingi að afgreiða mál á færibandi. Hæstv. forsætisráðherra finnst væntanlega alvanalegt að mál komi inn í þingið, fái ekki eðlilega þinglega meðferð, fái ekki þá meðferð sem þarf í þingnefndum þar sem félagasamtökum, fyrirtækjum, einstaklingum og öðrum gefst tækifæri til að gera athugasemdir við þingmál. Oft og tíðum taka þingmál breytingum eftir slíka vinnslu.

Í ljósi ummæla forsætisráðherra hvað þetta snertir, að það sé fyllilega eðlilegt að mál séu afgreidd með þessum hætti gegnum þingið, að það sé fyllilega eðlilegt að þingnefndir fái þau ekki í eðlilegan tíma til meðhöndlunar, að það sé fyllilega eðlilegt að engar umsagnir séu heimilaðar um málin — getur ekki verið, ég er með þessar vangaveltur af því að hæstv. forsætisráðherra var að æsa sig yfir þessu í morgun, að þetta sé eitt af þeim málum sem sé lagt fram í gríðarlegum ágreiningi innan stjórnarliðsins, menn séu ekki búnir að koma sér saman um málið áður en það kemur inn í þingið og þess vegna sé þetta mál að koma of seint? Er mikill bragur á því að við skulum ítrekað vera að sjá stór og mikilvæg mál koma inn í þingið á síðustu metrunum og fái þar af leiðandi ekki eðlilega þinglega meðferð? Er þetta það sem mætti kalla hluta af nýja Íslandi? Gæti hv. þingmaður aðeins komið inn á þetta og velt upp þessum sjónarmiðum? Ég vildi gjarnan heyra álit hv. þingmanns á þessu.