140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er áhugaverð pæling sem hv. þingmaður kemur með í svari sínu, kannski líka í ljósi þess að í veikleikamati á fjárlögum 2012 liggur fyrir að hallinn á aðalskrifstofu velferðarráðuneytisins sem á að greiða upp þennan einskiptishalla — hagræðingin innan ráðuneytanna þegar lagt hefur verið út fyrir húsnæðiskostnaði, var í því tilviki um 250 millj. kr. Gert var ráð fyrir að það mundi kosta 160 milljónir, það endar í 243 milljónum. Nú liggur fyrir áætlun sem segir 125–225 millj. kr. og auðvitað er ekki hægt að bjóða þinginu upp á að ræða það, sérstaklega í ljósi fjárhagsstöðu ríkissjóðs.

Í mati á veikleikum í fjárlögum 2012 segir velferðarráðuneytið: Við munum ekki geta orðið við þessum niðurskurði. Það hefði þurft að rétta hann af árið 2011. Ráðuneytið mun ekki ráða við þennan niðurskurð árið 2012 þannig að rökin fyrir sameiningu eru fallin. Ekki síst í ljósi þess að aðalskrifstofurnar fengu minni niðurskurð á þessum árum en aðrar aðalskrifstofur ráðuneyta. Það lýsir kannski vinnubrögðunum þegar menn halda í þessa vegferð og áætlanir, sem ættu auðvitað að vera vel unnar, að þær standast engan veginn þegar niðurstaðan liggur fyrir. Það er grafalvarlegt að fara í þessar breytingar þegar fyrir liggur að hafa þarf miklar áhyggjur af því að niðurstaðan verði önnur en í upphafi var lagt af stað með.

Ég verð að nota síðustu sekúndurnar til að segja að þetta endurspeglar það sem oft og tíðum á sér stað á þinginu, og sérstaklega hjá stjórnarliðum. Menn tala um að verið sé að vinna að ákveðnum verkefnum en svo er unnið þvert á það sem sagt er. Það kristallast í þessu dæmi, að breyta Stjórnarráðinu á síðustu vikum þingsins, og í raun kjörtímabilsins, (Forseti hringir.) sem kostar jafnmikið og að reka E-deildina á Akranesi í tvö ár.