140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[12:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Ég minni líka á að það tók ekki nema 12 daga í þinginu, fyrir utan þessar þrjár klukkustundir í þingsal, að afgreiða það mál. Engar greiningar lágu þar til grundvallar sem þó liggja hér til grundvallar að því er varðar atvinnuvegaráðuneytið og efnahagsráðuneytið.

Stofnun atvinnuvegaráðuneytisins er ekki ný af nálinni, hún hefur verið á stefnuskrá margra flokka og hefur verið lengi hér til umræðu, raunverulega allt þetta kjörtímabil. Mér finnst svörin sem hér er lagt upp með ekki mjög trúverðug.

Þegar við vorum með stjórnarráðsmálið á síðasta þingi átti að breyta fyrirkomulaginu og setja það á sama stað og er alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum nema Finnlandi, að það væri raunverulega á valdsviði ríkisstjórnar hverrar um sig hvernig hún vildi haga skipan Stjórnarráðsins. Samkomulag náðist ekki um það. Við reyndum að ná samkomulagi sem ég veit að þingmaðurinn man eftir, að þegar og ef gerðar yrðu breytingar færu þær í eina umræðu hér í þinginu, tekið strax á dagskrá og afgreitt. Hér stendur að taka eigi málið strax á dagskrá í þessum lögum og afgreiða það. Merking þess „að afgreiða það“ lít ég svo á að sé að það eigi að afgreiða það út úr þinginu.

Mér finnst stjórnarandstaðan hálft í hvoru vera að brjóta það óformlega samkomulag sem var gert á síðasta þingi um Stjórnarráðið þegar þetta mál er tekið í gíslingu með þessum hætti. (Gripið fram í: Allt annað …) Mér finnst þingmaðurinn ekki hafa svarað því hvað þarf langan tíma til að ræða þetta mál sem ekki sér fyrir endann á, 30–40 klukkustundir á móti þessum þremur klukkustundum sem þá dugðu.

Síðan er ekki rétt farið með hér, eins og stundum er rætt, að það er verið að tala um mikinn kostnað af þessu. 400–500 milljónir var rætt í ræðustól áðan en það er ekkert talað um sparnaðinn af þessu. (Forseti hringir.) Húsnæðismálið er einskiptiskostnaður, en rekstrarkostnaður er líka mikill, t.d. varðandi fyrri sameiningar, um 150 milljónir á ári. (Gripið fram í.)