140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umgjörð ríkisfjármála.

[13:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur hafið umræðu um umgjörð ríkisfjármála og fyrir það vil ég þakka. Ég mun nú leitast við að gefa viðhlítandi yfirlit yfir stöðu endurskoðunar á gildandi fjárreiðulögum sem nú stendur yfir.

Aðdragandi að endurskoðun fjárreiðulaga, nr. 88/1997, er sá að fjármálaráðherra skipaði í október á síðasta ári fulltrúa í stýrinefnd sem fjalla skyldi um gildandi löggjöf og setja fram tillögur um breytingar. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá fjármálaráðuneyti, forsætisráðuneyti, Hagstofu Íslands, Ríkisendurskoðun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Fjársýslu ríkisins auk áheyrnarfulltrúa frá fjárlaganefnd. Fulltrúar nefndarinnar tryggja að ólík sjónarmið á kosti og galla gildandi löggjafar og nauðsynlegar umbætur verði rædd. Stefnt er að því að kynna drög umrædds frumvarps fyrir hv. fjárlaganefnd í lok maí og að frumvarp til nýrra laga um opinber fjármál verði lagt fyrir Alþingi í haust.

Lög um fjárreiður ríkisins frá 1997 voru á sínum tíma mikið framfaraskref. Lögin ná í meginatriðum til undirbúnings framkvæmda fjárlaga, reikningshalds ríkisins og að nokkru leyti til áætlunargerðar og stefnumörkunar. Gagnrýni á gildandi löggjöf hefur einkum verið á þá leið að lögin séu nokkuð almenn og varði mikið til reikningsskil og bókhald. Þá hefur verið gagnrýnt að lögin skorti ákvæði um hvernig staðið skuli að stefnumörkun í opinberum fjármálum og hvernig slík stefnumörkun tengist undirbúningi fjárlagagerðar. Þá er talið mikilvægt að setja skýrari reglur um fjáraukalög og undirbúning og samþykkt þeirra, að herða reglur um flutning fjárheimilda og fækka fjárlagaliðum.

Markmið umræddrar endurskoðunar er því eðli málsins samkvæmt að leggja fram heildstæða löggjöf um stjórn opinberra fjármála, þ.e. löggjöf sem nær bæði til ríkis og sveitarfélaga auk ríkisfyrirtækja og tekur með skýrari hætti á stefnumörkun hins opinbera, undirbúningi og framkvæmd fjárlaga. Ekki er unnt að greina ítarlega frá þeim drögum sem nú liggja fyrir enda er mörgum spurningum enn ósvarað. Ég mun því fjalla almennt um þau atriði sem líklegt er að rati í frumvarp til nýrra laga um fjármál hins opinbera.

Í fyrsta lagi virðist ríkja einhugur innan stýrinefndar um að í lögum um fjármál hins opinbera verði tilgreind ófrávíkjanleg gildi sem stefnumörkun í fjármálum hins opinbera skal grundvölluð á. Þau gildi sem um ræðir eru m.a. sjálfbærni, fyrirhyggja og stöðugleiki. Með því að tilgreina slík ófrávíkjanleg gildi eru sett viðmið sem hverri ríkisstjórn er skylt að fylgja þegar m.a. fjárlagafrumvarp er undirbúið og lagt fram. Auk fyrrgreindra gilda er stefnt að því að settar verði nánari reglur og viðmið um hvernig staðið verði að stefnumótun hins opinbera, þar með talið hvenær áætlanir um fjármál næstu ára eru lagðar fram á Alþingi, hvaða markmið komi fram í slíkum áætlunum og hvernig áætlanir um opinber fjármál tengist undirbúningi og framlagningu fjárlagafrumvarpsins.

Í öðru lagi er stefnt að því að leggja til einfaldari og jafnframt skýrari framsetningu fjárlagafrumvarps. Með því megi auka yfirsýn Alþingis um þróun ríkisútgjalda og þær megináherslur sem koma fram í fjárlagafrumvarpi hverju sinni, í stað þess að fjalla um einstakar stofnanir eða verkefni. Samkvæmt þessu mundi fjárlagaliðum fækka og Alþingi samþykki þess í stað útgjöld til málefnasviða sem svo skiptast í málaflokka. Dæmi um málasvið er til að mynda menntamál og málaflokkar þess sviðs væru m.a. grunnskólar, framhaldsskólar og háskólar. Ráðherrum bæri svo að ákveða fjárveitingar til stofnana samkvæmt fjárheimild Alþingis og nánar tilgreindum reglum.

Í þriðja lagi er stefnt að því að fjárstjórn ríkisaðila verði efld til muna. Þannig verði gerðar auknar kröfur til áætlunargerðar stofnana og ráðuneyta. Stofnunum verði gert að skila sjóðsstreymisáætlunum fyrir áramót og skerpt er á ábyrgð forstöðumanna ef rekstur er ekki í samræmi við rekstraráætlanir eða samþykktar fjárveitingar. Fjölmörg önnur atriði eru til skoðunar, svo sem að lögin nái einnig til fjármála sveitarfélaga og öll notkun alþjóðlegra staðla verði uppfærð.

Hlutverk fjárlaganefndar mun ekki breytast nema með óbeinum hætti með nýjum lögum. Þær breytingar sem að er stefnt er að styrkja umgjörð opinberra fjármála og skýra þær reglur sem fylgja ber ásamt því sem auðveldara verður að átta sig á þróun ríkisútgjalda, bæði innan fjárlagaárs og milli ára. Eftirlit fjárlaganefndar verður um leið markvissara.