140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umgjörð ríkisfjármála.

[13:42]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir þá umræðu sem hér er vakin, hún er löngu þörf og brýn. Það sem hv. málshefjandi og hæstv. ráðherra hafa sagt hér er allt satt og rétt og gott og gilt.

Ég hef hins vegar þá sýn til þessara hluta að regluverk og löggjöf sé eitt og framkvæmd annað, þ.e. að koma hlutum til verka. Við sjáum ýmis dæmi þess í fjárstjórninni að þrátt fyrir gildandi ákvæði laga og reglna er ekki endilega unnið í samræmi við þær. Mér hefur því oft og tíðum þótt meira áberandi að reglum sem fyrir liggja sé ekki fylgt og vanmáttur þingsins er töluverður í því að koma athugasemdum og úrbótum í því efni til framkvæmda. Ég er ekki að segja þetta í einhverju pólitísku þjarki heldur segir sagan okkur að þingið er í afgreiðslu sinni og umræðu oft og tíðum læst í þeim veruleika sem er, eðlilega, að stjórnarliðar bera ábyrgð á þeim ráðherrum sem koma úr þeirra röðum.

Ég tel að við þurfum að ganga betur úr skugga um og styrkja valdheimildir þingsins og svigrúm þess til að vinna með það sem lýtur að áætlunum fjárlaga og eftirfylgni, að ábyrgðarveitingum ríkissjóðs, að því sem lýtur að heimildargreininni margumræddu og síðan atriði sem við eigum eftir að ræða hugsanlega síðar á þessum fundi, þ.e. samspil ríkisreiknings og lokafjárlaga. Þetta eru allt saman þættir sem heyra til þess verks sem við eigum eftir að vinna og koma vonandi fljótlega fram. En meginatriðið í því sem ég tel að við þurfum að gera er að losa þingið úr þeirri læstu stöðu sem það er í gagnvart gerð (Forseti hringir.) fjárlaga, afgreiðslu þeirra og eftirfylgni.