140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umgjörð ríkisfjármála.

[13:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að mestu leyti málefnalega umræðu og hæstv. ráðherra þakka ég fyrir greinargóð svör. Ég fagna því að í vændum séu hér á landi fjárreiðulög sem eru sambærileg við þau lög sem notuð eru í nágrannaríkjum okkar og þykja hvað best.

Margir hv. þingmenn hafa fjallað um þá þætti sem þeir telja að þurfi að bæta og ég get tekið undir margt af því sem sagt hefur verið, þó ekki allt. Ég get sagt að við ætlum að gera þessar breytingar en minni á að það tekur tíma að snúa ofan af vondum venjum. Það þarf pólitískan kjark, öfluga stjórnsýslu og skýran vilja. Ég tel að hv. fjárlaganefnd Alþingis hafi skýr markmið í vinnu sinni, sterkan vilja og jafnframt þverpólitíska samstöðu.

Ég vil sérstaklega koma inn á orð hv. þm. Þórs Saaris um lánaumsýslu ríkisins. Ég tek heils hugar undir með honum að þetta sé þáttur sem fjárlaganefnd þurfi að einbeita sér mun meira að, enda er skuldastaða ríkissjóðs alvarleg þó að markvisst sé unnið að því að byrja að greiða niður skuldirnar. Ég mun svara því ákalli hans og hef þegar rætt það við hann að við tökum málefni lánastýringar ríkissjóðs til umfjöllunar í fjárlaganefnd í maímánuði.