140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

umgjörð ríkisfjármála.

[14:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær ágætu umræður sem hér hafa farið fram. Þörf er á breyttu viðhorfi og breyttri hugsun hvað ríkisfjármálin varðar, sagði hv. formaður fjárlaganefndar í ræðu sinni áðan. Undir þau orð vil ég taka. Langtímaáætlanir og síðan skuldbindingar við þær skipta miklu máli í því sambandi. Við verðum að finna leiðir til að auka aga í ríkisfjármálum hér á landi og sé litið til umræðu innan Evrópusambandsins hefur athyglin einkum beinst að því hvernig tryggja megi að ríkið fylgi sambærilegum leikreglum, að samsetning afkomu og skuldastöðu sé samhæfð, hvernig samræma megi notkun reikningsskilastaðla og umfram allt að sett séu ströng skilyrði fyrir notkun fjárheimilda og að viðurlögum sé beitt ef áætlanir standast ekki.

Öll þessi sjónarmið tengjast beint og óbeint endurskoðun á fjárreiðulögunum sem vonandi mun leiða til þess að á Íslandi gildi til framtíðar fyrirmyndarlöggjöf á sviði fjármála hins opinbera. Við eigum að kynna okkur vel og leggja okkur fram við að njóta góðs af reynslu þeirra ríkja sem lengst eru á veg komin til að þróa skýra og skilvirka umgjörð um opinber fjármál og því hefur fjármálaráðuneytið átt meðal annars í góðu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn við mótun helstu áherslna við umrædda endurskoðun og horft til nágrannalanda, svo sem Svíþjóðar, við endurbæturnar. Vönduð og skilvirk skuldastýring er þar á meðal.

Ísland hefur nú endurheimt trúverðugleika og traust á alþjóðamörkuðum og það er einkum fyrir árangur ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna í ríkisfjármálum. (VigH: Ertu að grínast?) Það kemur mér á óvart ef það hefur farið fram hjá hv. þingmönnum.

Að lokum vil ég taka fram að mikil áhersla er lögð á að frumvarp til nýrra laga um opinber fjármál verði undirbúin eins faglega og kostur er og í góðu (Forseti hringir.) samráði við önnur ráðuneyti, fjárlaganefnd og alla hagsmunaaðila.