140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ágætisspurningar. Fyrri spurningin er: Af hverju skyldi ríkisstjórnin vera búin að skipta um skoðun, að því er virðist, og hvers vegna er ekki stuðst við ráðgjöf sérfræðinganna Kaarlos Jännäris og Thoravals? Við þessu hef ég ekki mikil svör, en mér sýnist þetta vera hluti af einhvers konar valdabaráttu innan ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í: Er þetta þá bara …?) Það má vel vera að það sé skynsamlegt að efnahagsmálin séu öll í fjármálaráðuneytinu. Ég býst við að mönnum hafi þótt það vel í lagt að færa fjármálamarkaðina og Fjármálaeftirlitið líka undir fjármálaráðuneytið sem væri þá orðið risastórt ráðuneyti í öllu samhengi. Þá væri fjármálaráðherra hvers tíma kominn með gríðarlega mikil völd. Ég tel að það sé viss skammsýni í því að gera boðleiðir lengri og erfiðari með því að leggja niður efnahagsráðuneytið og skipta upp þeim fúnksjónum sem þar hafa verið. Ég get raunverulega ekki svarað neinu um af hverju þetta er gert en get þó svarað því til að það er mín skoðun að það sé skammsýni að gera þetta og að þetta sé langt frá því að vera úthugsað. Það er mun betur heima setið en af stað farið miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið og liggja fyrir í málinu.