140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Já, ekki er hægt að ráða í þetta að þessu leyti miðað við þær upplýsingar sem við þingmenn höfum í málinu vegna þess að þarna virðist eitthvað hulið og ekki sjá þessir viðkomandi ráðherrar sóma sinn í að sitja í þingsal meðan þessi umræða fer fram þannig að þeir geti þá svarað þeim spurningum sem koma fram í umræðunni.

Þingmaðurinn minntist á að hugsanlega væri um að ræða valdabaráttu innan ríkisstjórnarinnar. Ef það er, frú forseti, er þessi ríkisstjórn hvorki í þessu máli né öðrum að huga að þjóðarhag. Þá er þessi ríkisstjórn fyrst og fremst að hugsa um að halda völdum og reyna að sitja nokkra daga í viðbót í stólunum sínum.

Sá atburður varð í byrjun þessarar umræðu að hæstv. þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra hefur sagt sig andsnúinn þessum hugmyndum og þar með missti ríkisstjórnin atkvæði hans í þessu máli. Sá ráðherra sem ég minntist á situr nú sem óbreyttur þingmaður, hv. þm. Árni Páll Árnason, og hefur aðeins komið í ræðustól í þessari umræðu til að gagnrýna hvernig farið er fram með þessi mál í þessari þingsályktunartillögu.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson talaði um að það væru þröngir hagsmunir sem réðu för í þessu máli og talaði um skammsýni ríkisstjórnar að fara fram með þetta á þennan hátt. Þar af leiðandi sagði hann að málin væru ekki nægilega krufin og ekki hugsuð til lengri tíma, enda styttist í kosningar. Í framhaldi af því langar mig að biðja þingmanninn að svara seinni spurningunni minni frá fyrri umferð: Hvernig er þessum málum fyrirkomið í þeim löndum sem við berum okkur svo gjarnan saman við? Þá er ég aðallega að vísa til Norðurlandanna svo svarið verði ekki langt.