140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar kostnaðinn leyfi ég mér að efast um að það verði einhver sparnaður af þessu. Það er algjörlega ljóst í mínum huga að það að breyta ráðuneytum á eins til tveggja ára fresti, eins og hefur verið þetta kjörtímabil, er gríðarlega dýrt og hefur ekkert með sparnað að gera, er þvert í móti kostnaðarauki fyrir rekstur hins opinbera. Það er mikill kostnaður fólginn í að sundra og sameina ráðuneyti eins og þessi ríkisstjórn tíðkar þannig að ég leyfi mér að efast um það.

Ræða mín fjallaði um skilvirkni í sambandi við fjármálamarkaði, hagstjórnina og efnahagsmálin og ég tel að með þessu muni hún minnka. Ég tel að það að byggja gjá á milli til dæmis Fjármálaeftirlits og Seðlabanka með því að láta þetta hvort heyra undir sitt ráðuneytið sé andlag við skilvirkni. Jafnframt held ég að til meðallangs tíma litið sé það ekki skilvirkt að sundra stöðugt og sameina ráðuneyti vegna þess að þá næst engin festa í hlutina. Þar af leiðandi tel ég þetta misráðið út frá kostnaði, skilvirkni og yfirsýn, auk þess sem ég er sammála túlkun hv. þingmanns á því að það er líklegt að veldi embættismannanna vaxi með tímanum ef við fáum gríðarstór ráðuneyti vegna þess að þeir sem bera pólitíska ábyrgð hafi ekki lengur (Forseti hringir.) yfirsýn yfir málaflokkana.