140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:31]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar sem hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fram og lagt mikla áherslu á að ná í gegn breyttri skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Rétt er að varpa hér í upphafi ljósi á þá staðreynd sem hefur komið fram í þingræðum að þetta er líklega sjötta þingmálið sem hæstv. forsætisráðherra leggur fram sem tengist því að breyta Stjórnarráði Íslands og ráðuneytaskipan frá því að hún tók við embætti eftir síðustu alþingiskosningar. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hver séu rökin fyrir því að hringla þarf með Stjórnarráðið fram og til baka nánast árlega með ærnum tilkostnaði af rótleysi og stefnuleysi. Svari hver fyrir sig.

Af því hæstv. forsætisráðherra hefur farið mikinn og talað um að þingmenn séu í málþófi í þessu og öðrum málum er rétt að halda því til haga að ríkisstjórnin, sem leggur áherslu á það með þessari þingsályktunartillögu að verið sé að auka formfestu, skilvirkni og fleira í Stjórnarráðinu og stjórnkerfinu, kom með bunka af þingmálum á síðustu dögunum fyrir páska og sagði svo strax eftir páska að þessi mál yrðu öll keyrð í gegn. En til að það megi takast er mikilvægt að mál eins og þetta fái ekki eðlilega, þinglega meðferð. Það vita allir að þegar mál koma inn á síðustu metrum þings munu þau ekki ná í gegn ef þau eiga að fá eðlilega, þinglega meðferð.

Hvað veldur því að ríkisstjórnin hefur í allan vetur verið að vandræðast með að leggja fram fjölmörg mál sem hefðu getað komið fram á haustdögum og þar af leiðandi fengið eðlilega þinglega meðferð?

Þessi þingsályktunartillaga fór til að mynda eftir fyrri umræðu og gríðarlega gagnrýni, bæði stjórnarandstöðu og stjórnarliða, tveir hæstv. fyrrverandi ráðherrar gagnrýndu tillöguna harðlega, til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en var tekin þaðan út tveimur og hálfum sólarhring síðar. Fyrir þá sem ekki þekkja hvernig málum er yfirleitt háttað þá fara mál til nefndar eftir fyrri umræðu, því næst fara þau til umsagnar í um það bil tvær vikur þar sem félagasamtökum, einstaklingum, fyrirtækjum og öllum þeim sem vilja gera athugasemdir við viðkomandi þingmál gefst færi á að senda inn umsagnir um málið og í framhaldinu geta mál tekið breytingum í nefnd, menn átta sig á því að eitthvað hefði mátt vera öðruvísi o.s.frv. Það lá svo mikið á þessu máli þar sem komið var með það inn á síðustu dögunum fyrir vorþing að ekki var hægt að senda það út í eðlilegt umsagnarferli.

Frú forseti. Maður skyldi ætla ef menn hlustuðu á fyrri umræðu þessa máls að þeir áttuðu sig á því að töluverður ágreiningur var um málið, ekki var það einungis stjórnarandstaðan.

Mig langar að vitna til ummæla hv. þm. Árna Páls Árnasonar sem var ráðherra efnahagsmála fyrir áramót. Hann sagði í fyrri umræðu um þetta mál, með leyfi forseta:

„Þetta er stórt mál sem liggur hér undir og tími naumt skammtaður og ég mun því reyna að einskorða mig við aðalatriði málsins.

Ég vil fyrst segja að almennt séð er auðvitað ekki góður bragur á því að hringlað sé með verkaskiptingu í Stjórnarráðinu nema að vel athuguðu máli. […] núna er tæpt ár til þingkosninga og þær breytingar sem hér er rætt um eiga að taka gildi hálfu ári fyrir þingkosningar.“

Þetta gagnrýndi hv. þingmaður. Hann kemur jafnframt inn á í ræðu sinni að þetta sé algerlega andstætt því sem hafi komið fram í samstarfsyfirlýsingu flokkanna og efast um að ríkisstjórnin hafi umboð til að leggja þetta fram. Hann endaði ræðu sína á því að segja, með leyfi forseta:

„Það er ómögulegt að róta svo í grundvallarforsendum hagstjórnar í landinu eins og hér er gert ráð fyrir án nokkurrar undangenginnar greiningar.“

Fram hefur komið við fyrri umræðu um málið og aftur við síðari umræðu þess að engin slík vinna hefur farið fram. Ekkert slíkt fór fram milli fyrri og síðari umræðu. Frú forseti. Það getur ekki gengið til lengdar að forustumenn ríkisstjórnarinnar, sem hafa verið vanir því allan sinn pólitíska feril í 30 ár að geta farið allt á hnefanum án þess að gætt sé faglegra vinnubragða, geti ítrekað komið fram við Alþingi með þeim hætti sem verið er að gera. Það er ekki bara í þessu máli, fleiri mál bíða afgreiðslu sem ljóst er að verða keyrð í gegn á færibandi eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér í lok síðustu viku.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í síðustu viku að það væri fullkomlega eðlilegt að mál væru keyrð í gegn á færibandi á síðustu vikum þingsins. Menn eru auðvitað að reyna að breyta þessu. Þetta mun ekki breytast meðan slíkt viðhorf er ríkjandi í Stjórnarráði Íslands og hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar sem hafa greinilega ekki komið hingað inn eftir síðustu kosningar í þeim tilgangi að tileinka sér þær breytingar sem lagt var upp með í skýrslu þingmannanefndar Alþingis sem var samþykkt 63:0 í þinginu.

Frú forseti. Komið hefur fram mikil andstaða við þetta mál. Ég leysti hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur af þá tvo daga sem þetta mál var til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Tveir fundir voru haldnir þar sem gestir komu í belg og biðu. Þeir fengu tvær mínútur til að gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Enginn þeirra hafði tækifæri til að senda inn skriflega umsögn. Það vakti athygli mína því að hæstv. forsætisráðherra hefur haldið því fram að þetta sé margskoðað, stofnun umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvegaráðuneytis og það að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, hringla með Seðlabankann og alla umgjörð efnahags- og viðskiptamála á kjörtímabilinu, og allt liggi ljóst fyrir í þessu efni.

Það vakti einnig athygli mína, sem hef þó fylgst nokkuð vel með þessu máli, að þá fundi sem ég sat í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kom fram að langflestir þeirra gesta sem komu fyrir nefndina voru mjög andvígir málinu og töldu að það þyrfti að skoða það miklu betur og svara þyrfti spurningum á borð við hvar einstakar stofnanir yrðu vistaðar.

Það sem vakti sérstaka athygli var að mörg þau hagsmunasamtök og félagasamtök sem áður voru frekar jákvæð fyrir breytingum á Stjórnarráðinu í þá átt að stofna atvinnuvegaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti sögðu: Í ljósi alls sem við höfum kynnt okkur og séð hvernig þetta mál hefur þróast erum við orðin andvíg því í dag. Þetta eru auðvitað bara orð á móti orði viðhöfð á nefndarfundi, en ég hygg að hefði málið farið í eðlilega, efnislega meðferð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og farið til umsagnar hefðu menn fengið umsagnir þess efnis að margir þeirra sem áður studdu þessa tillögu hefðu snúist gegn henni. Ég hygg til að mynda að í sjávarútvegi, landbúnaði og í atvinnulífinu í heild sinni, hjá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og fleirum, hefðu menn lagst algerlega gegn þessu. Hluti þessara samtaka var fylgjandi þessum breytingum á sínum tíma. Þannig að það er farið að fjara undan.

Ríkisstjórnin gat í rauninni ekki komið þessu máli í gegn óbreyttu til síðari umræðu með því að fara með það í eðlilega, þinglega meðferð. Það er ámælisvert, sérstaklega þegar maður skoðar rökstuðninginn fyrir þessari þingsályktunartillögu sem er m.a. sá að þetta muni á einhvern hátt styrkja og efla stjórnsýsluna, gera vinnubrögð betri og skilvirkari.

Frú forseti. Þetta snýst ekkert um stjórnarráðsmálið. Þetta snýst um það að forustumenn ríkisstjórnarinnar, sem hafa setið hér svo áratugum skiptir, séu tilbúnir að tileinka sér ný vinnubrögð. Nú horfi ég á hæstv. utanríkisráðherra, það á ekki hvað síst við um hann að tileinka sér ný vinnubrögð, (Utanrrh.: … mér yngri menn.) að það séu ekki bara orð á blaði og að því er virðist von forsætisráðherra að málum sé þannig háttað að þetta muni skila árangri. Það sjá allir sem hafa fylgst með hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessu máli og fleiri málum að spyrna verður við fótum.

Frú forseti. Við verðum að fara að sjá það í þinginu að mál fari í eðlilega, þinglega meðferð. Það á ekki við um þetta mál. Ég vil taka undir með þeim ræðumönnum sem hafa talað hér í dag og hafa gagnrýnt þetta og sagt að umræðan (Forseti hringir.) um málið hefði kannski verið styttri í þinginu ef það hefði fengið eðlilega, þinglega meðferð.