140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni og hafði eftir hv. þm. Árna Páli Árnasyni þegar hann ræddi þetta mál í fyrri umræðu að hann segði málið óunnið, vanreifað og órökstutt. Hv. þingmaður benti líka á að komið hefði fram að þetta gengi hugsanlega gegn stjórnarsáttmálanum og ekkert væri gert til að réttlæta málið og fara í greiningu á efnahags- og viðskiptaráðuneyti sem hann hafði mestar áhyggjur af. Síðan sagði hv. þingmaður reyndar líka að það væri engu líkara en ríkisstjórnin væri búin að gefast upp á verkefninu um sameiginlega og samstillta hagstjórn, sem eru stór orð og þeir sem hlustuðu á þá ræðu tóku auðvitað vel eftir því sem þar kom fram.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Við ræddum hérna rétt áðan um ábyrgð í ríkisfjármálum og umgjörð ríkisfjármála og allir voru sammála um að mikilvægt væri að taka á því, en þegar fjárlög voru samþykkt fyrir árið 2012, sem gerðist í desember, lágu ekki fyrir neinar beiðnir um að fara í þessar framkvæmdir, það voru engar beiðnir um það. Þetta kom bara upp úr hattinum eftir áramót. Það staðfestir kannski hvernig þetta gerist.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji þessar breytingar á Stjórnarráðinu eingöngu til komnar út af þeim ráðherrabreytingum sem urðu síðustu áramót þegar tekin var sú ákvörðun að henda út tveimur hæstv. ráðherrum. (Utanrrh.: Henda út?) Henda út, hæstv. utanríkisráðherra, ekki fóru þeir sjálfviljugir, það fór ekki á milli mála, það gefur augaleið. Því spyr ég hv. þingmann: Er þetta mál ekki einfaldlega svona vegna þess að þegar farið var í þessa vegferð var verið að púsla ráðuneytum utan um einstaka hæstv. ráðherra?