140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[14:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér enn um Stjórnarráðið og höfum gert í allnokkra stund en velta má því fyrir sér hverju sú umræða skilar. Við höfum gagnrýnt vinnubrögðin og ég fór fyrr í umræðunni nokkuð ítarlega yfir skýrslu þingmannanefndarinnar þar sem niðurstaðan er sú að stjórnsýslan hafi brugðist í aðdraganda hrunsins og að stjórnsýslan þyrfti að fara í gagngera endurskoðun. Ég hef haldið því fram, og því hefur ekki verið mótmælt af þeim sem vilja breyta skipan á Stjórnarráðinu, að hvergi í skýrslunni standi að fara eigi þá leið sem hér er verið að fara. Eiginlega má halda því fram að sumt gangi í berhögg við það, samanber ábyrgð ráðherra, sameiginlega, og skýra ábyrgð ráðherra á sjálfstæðum undirstofnunum.

Ég hef ítrekað rætt hér um efnahags- og viðskiptaráðuneytið og niðurlagningu þess en engin svör hafa borist, engin rök. Bent hefur verið á skýrslu samstarfshópsins þar sem rök voru sett eftir á, eftir að menn tóku þessa ákvörðun við ráðherrauppskiptinguna um áramótin, og það verður að segjast eins og er að þar stangast margt á.

Einnig hefur verið vísað til þess að verið sé að setja upp norrænt kerfi og setja fjármálaeftirlitskerfið undir norrænt skipulag. Það er rangt.

Varðandi auðlinda- og umhverfisráðuneytið og síðan atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hefur því líka verið haldið fram að verið sé að setja upp norrænt kerfi. Það er hrein blekking. Það kemur fram í þessari ágætu skýrslu samstarfshópsins þar sem er yfirlit yfir það hvernig þessum málum er háttað á Norðurlöndunum.

Ég ætla að nota smátíma í að fara yfir það hvernig þetta gæti síðan þróast. Við höfum talsvert rætt um það hvar þær stofnanir sem heyra undir ráðuneytin í dag munu enda, talsvert hefur verið rætt um Hafrannsóknastofnun og ýmsar aðrar stofnanir. Engin svör hafa komið, væntanlega vegna þess að ekki er meiri hluti í ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum, eins og fram hefur komið, og þau fara fram með þetta mál án nægilegs undirbúnings og vilja ekki rugga bátnum óþægilega mikið með því að lýsa því yfir hvað vaki fyrir þeim með færslu á stofnunum og skapa þannig enn meiri óánægju úti í samfélaginu og innan raða Stjórnarráðsins og stofnana þess.

Við höfum verið að ræða rammaáætlun upp á síðkastið og hvernig hún hefur breyst í pólitískt plagg þar sem þó komu tveir ráðherrar saman, úr iðnaðarráðuneyti og úr umhverfisráðuneyti, og breyttu niðurstöðu faghópanna sem var skilað til ríkisstjórnarinnar síðastliðið sumar. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna til ágætrar umsagnar og álits GAMMA á rammaáætlun:

„Breytingar þær sem urðu á drögum að tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (lögð fram 18. ágúst 2011) til endanlegrar tillögu (727. mál), þar sem virkjanir í neðri hluta Þjórsár og Skrokkölduvirkjun voru færðar í biðflokk, leiða til þess að fjárfestingar í orkuframleiðslu og flutningi munu dragast saman um 120 milljarða króna á árabilinu 2012–2016 og fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og afleidd áhrif munu dragast saman um 150 milljarða króna. Samtals verður því fjárfesting og afleidd áhrif um 270 milljörðum króna minni en ella á umræddu tímabili. Uppsafnaður hagvöxtur verður 4–6% minni fyrir vikið og atvinnulífið verður af um það bil 5.000 ársverkum á þessu fjögurra ára tímabili.“

Mig langar að varpa því hér fram hvort það að breyta núverandi fyrirkomulagi í það að auðlinda- og umhverfisráðuneyti fari eitt með öll þessi mál, þetta yrði sem sagt háð ákvörðun eins ráðherra — ef við sætum áfram uppi með ríkisstjórn sem er skipuð eins og nú er, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki, gæti ráðherra sem færi fyrir því ráðuneyti haldið áfram að breyta faglegri vinnu, sem sett hefur verið á laggirnar og unnið hefur verið að í meira en áratug, í þetta pólitíska plagg. Við gætum haldið áfram að verða af verulegum hagvexti í landinu vegna þess að sjónarmið þess ráðherra sem færi með þessi mál undir einu ráðuneyti næðu (Forseti hringir.) yfir allt málið og fleiri sjónarmið kæmu ekki fram.

Ég fullyrði, frú forseti, að þetta mundi ekki (Forseti hringir.) verða landinu eða þjóðfélaginu til góðs. Og þetta er ekki norrænt kerfi, (Forseti hringir.) svo að það sé nú sagt einu sinni enn.