140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur hlaup á mönnum núna, verið er að funda hjá forseta og ýmislegt í gangi. Ég mun líklega ekki geta nýtt allan ræðutíma minn í þessari atrennu.

Þetta mikla mál, breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráðinu, hefur verið mikið rætt og ýmislegt sagt um það. Ljóst er að skiptar skoðanir eru á því hvernig ráðuneytin eiga að líta út, hvernig staðið er að breytingum á þeim og annað. Ég vil ítreka það sem kom fram hjá mér fyrr í umræðu um þetta mál að skynsamlegra væri að reyna að ná einhvers konar sameiginlegri sýn á ramma utan um Stjórnarráðið, ramma sem hver ríkisstjórn getur starfað innan á hverjum tíma, ekki eigi að binda þetta við ákveðinn fjölda ráðuneyta eða eitthvað slíkt. Það er líka mjög bagalegt að hræra í þessum hlutum rétt áður en kjörtímabilið er úti og öllum er ljóst að ný ríkisstjórn mun taka við að ári liðnu. Þar af leiðandi er svolítið sérstakt að hraða og þvæla málinu í gegn eins og hér er gert.

Það liggur ekki heldur nógu skýrt fyrir hvort frekari breytingar eru fyrirhugaðar, þ.e. breytingar á verkefnum eða málaflokkum milli ráðuneytanna, breytingar á stofnunum og þess háttar. Verð ég einnig að lýsa því yfir að ætli menn að fara í einhverjar stórkarlalegar breytingar á stofnunum, uppskiptingu eða færslu verkefna milli ráðuneyta, er það að sama skapi svolítið sérstakt í ljósi þess hversu stutt er eftir af kjörtímabilinu. Svona breytingar er eðlilegra að gera — og ég vona að menn læri af þessu í framtíðinni — í upphafi kjörtímabils, einbeita sér svo að því að láta þau ráðuneyti og stofnanir virka og ganga sem hafa verið sameinuð.

Ég hef lýst því yfir og vil endurtaka það hér að ég hef mjög miklar efasemdir um að það sé snjallt að setja á fót svo stór ráðuneyti eins og fyrirhugað er, ekki síst þegar komið hefur fram að þau eru býsna umfangsmikil og jafnvel full þörf á því að vera með fleiri en einn ráðherra í ráðuneytunum. Þá fer nú hagræðingin að verða lítil, nema kannski af símsvörun eða einhverju slíku, því væntanlega þurfa sérfræðingar að vera til staðar á hverju sviði. Auk þess er að mínu viti bagalegt að eyða jafnvel nokkrum sinnum á kjörtímabili tugum eða hundruðum milljóna í breytingar á húsnæði og tilfærslur. Það hefur verið lenskan hjá ríkisstjórninni að hræra í skipulaginu fram og til baka og spá ekkert í hvað það kostar. Ég vil leyfa mér að hafa miklar efasemdir um að sú hagræðing, sem hér er gert ráð fyrir muni nokkurn tímann nást, ekki síst ef öllu verður hér breytt að ári liðnu, þá er alveg klárt að þessir fjármunir koma ekki til baka.

Það er eðlilegt að spyrja sig að því hvort hverri ríkisstjórn sé ekki í sjálfsvald sett að ákveða fjölda ráðuneyta og hvernig þau líti út. Það má færa rök fyrir því. Það var hins vegar ákveðið að Alþingi hefði tækifæri til að tjá sig um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru. Það er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að ekki hefur verið gerð nein tilraun til að ná samstöðu með stjórnarandstöðunni eða að hafa samráð við hana um þær breytingar sem eru í farvatninu. Engin samstaða og aldrei reynt að tala við stjórnarandstöðuna um hvernig þessir hlutir eiga að líta út. Þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að þó nokkur tími hafi farið í að ræða þetta mál.

Það er hins vegar mikilvægt að sama skapi að ríkisstjórn hvers tíma geti í raun haft Stjórnarráðið í því fari sem sú stjórn telur að virki best. Það er nú ekki hægt að fullyrða að það eigi við í þessu tilviki þegar handahófskennd vinnubrögð virðast ráða því hvaða breytingar eru settar fram.

Komið hefur fram að sú breyting að hræra í efnahagsráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu var ekki á teikniborði ríkisstjórnarinnar þegar stjórnarsáttmálinn var gerður, en vissulega kemur sameining atvinnuvegaráðuneytanna þar fram, þ.e. að ráðuneytin er snúa beint að þessum hörðu atvinnumálum, iðnaði, sjávarútvegi og landbúnaði, verði sameinuð í eitt. Ég hef efasemdir um að rétt sé að gera það. Nýlundan er vitanlega breytingarnar á fjármálaráðuneytinu og efnahagsráðuneytinu. Eðlilegt er að ýmsir aðilar, bæði í stjórnarandstöðu og stjórnarflokkunum, hafi efasemdir um það.

Hvert er markmiðið með þessum breytingum? Það er búið að fara yfir það, hæstv. forsætisráðherra gerði það og reyndi að selja okkur þá hugmynd að af þessu væri mikil hagræðing og betri stjórnskipan næðist fram. Á hvorugt hefur verið sýnt fram. Það er ekki heldur hægt að sýna fram á að þær breytingar sem gerðar hafa verið á innanríkisráðuneyti og velferðarráðuneyti hafi verið viðskiptavinum þessara stórráðuneyta að skapi, ef rætt er við þá, í það minnsta segja þeir viðskiptavinir sem ég hef rætt við að erfiðlega gangi að fá svör eða jafnvel átta sig á því hver fari með hvaða hlutverk.

Það sem stendur þó upp úr er að eftir þrjú ár við völd hefur ríkisstjórnin ekki reynt að nálgast stjórnarandstöðuna og ná einhvers konar samstöðu eða samvinnu um framtíðarsýn á Stjórnarráðið. Það er alger uppgjöf á þeim bæ gagnvart því að reyna slíkt. Það hefur svo sem ekki mikið farið fyrir því, en hér var kjörið tækifæri til að lenda ekki í því þrasi sem við erum núna í.

Það hefur reyndar, frú forseti, verið aðalsmerki þessarar ríkisstjórnar að vinna helst málin með hnefann á lofti án þess að stjórnarandstaðan sé kölluð til fyrr en allt er komið í kaldakol. Við þekkjum það úr umræðunum að þegar við í stjórnarandstöðunni höfum reynt að koma á einhverjum breytingum til batnaðar fyrir heimilin í landinu hefur ekki verið á það hlustað fyrr en allt er komið í hnút.

Við hljótum í því sambandi, frú forseti, að spyrja okkur líka að því hvers konar forgangsröðun það er hjá ríkisstjórn að setja algjörlega óþörf mál eins og þetta, stjórnarráðsmálið, fremst í röðina. Öllum ætti að vera það ljóst, nema líklega hv. ríkisstjórn, að það sem mestu skiptir á Íslandi í dag er að koma fram með tillögur og hleypa í gegnum þingið tillögum er lúta að því að bæta stöðu heimilanna og bæta hag þeirra fyrirtækja sem eru þó að reyna að starfa í landinu.

Við heyrðum í umræðum í dag að vanskil hafa aukist. Í dag eru 26 þúsund einstaklingar í alvarlegum vanskilum, eins og það er kallað. Þeim hefur fjölgað um 1.500 milli ára. Það kom fram í mars síðastliðnum, minnir mig, að 6.300 fyrirtæki, um 20% allra fyrirtækja á Íslandi, eru í sömu stöðu. Ríkisstjórn hlýtur að þurfa að horfa á umhverfið sem þessi fyrirtæki vinna í og velta því fyrir sér hvar meinið liggur, hvort það er hjá ríkisvaldinu eða einhvers staðar annars staðar. Í tilfelli heimilanna og í tilfelli fyrirtækjanna held ég að meinið liggi klárlega hjá ríkisstjórninni. Þar hefur skort á allan vilja til að taka á þessum alvarlegu málum.

Frú forseti. Hjá nefndum Alþingis liggja nokkrar tillögur er lúta beint að því að bæta stöðu heimilanna og að koma atvinnulífinu af stað. Það verður mjög eftirtektarvert, ég ætla að nota það orð, að sjá hvort ríkisstjórnin mun taka til umræðu einhver af þeim fjölmörgu góðu málum sem stjórnarandstaðan hefur sett fram til að taka á málefnum heimilanna og fyrirtækjanna. Ég bið þá sem hafa áhuga á málefnum heimilanna og atvinnumálum að fylgjast vel með því á næstu dögum og vikum hvort stjórnarflokkarnir munu hleypa þessum málum í gegnum þingið og fara að vinna eftir þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram og sýnt hefur verið fram á að geti gengið upp. Það mun reyna á þetta núna á næstu dögum.

Það er óhætt að segja, frú forseti, að stjórnarandstaðan mun að sjálfsögðu á þessum lokadögum leggja mikla áherslu á að í gegnum þingið fari mál sem snúa að heimilum og fyrirtækjum í landinu.

Frú forseti. Ég gæti talað lengur. Ég get því miður ekki nýtt ræðutíma minn þar sem ég er að fara á fund með forseta þingsins, en ég held að ég hafi komið meginmáli mínu á framfæri á þessum stutta tíma.