140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta mál sem við erum að ræða er meingallað, þetta er þingsályktunartillaga sem gengur út á að breyta Stjórnarráði Íslands. Það er af mörgu að taka fyrir okkur sem gagnrýnum þetta mál. Það sem vekur athygli er að allir þeir sem þekkja til Stjórnarráðsins vita að þær breytingar sem hér er verið að fara í munu trauðla ná í gegn eða koma til framkvæmda fyrr en núverandi ríkisstjórn er farin frá völdum. Þetta væri kannski svolítið öðruvísi ef um væri að ræða breytingar sem góð sátt væri um.

Ég vek athygli á því að þegar menn hafa farið í slíkar breytingar hefur verið reynt að ná góðri sátt ef marka má orð núverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, sem hann viðhafði 2007, þegar hann fullyrti hreinlega að það væri hefð og stefna að ná sátt og samstöðu um þessi mál meðal allra stjórnmálaflokka á Alþingi, hvorki meira né minna. Hann var með slík stóryrði. Að vísu var það mál betur undirbúið, tekin lengri umræða, frá október fram í desember, (Gripið fram í.) en samt sem áður gekk þáverandi hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, núverandi hæstv. ráðherra, fram með þeim hætti að þeir sem lesa ræðu hans geta ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að hann hefði mjög sterka sannfæringu fyrir því að það væri afskaplega óskynsamlegt að breyta Stjórnarráðinu og algjörlega óboðlegt nema full sátt væri um það á milli stjórnmálaflokkanna eða þeir kæmu í það minnsta að þeim breytingum.

Þess vegna er áhugavert að sjá það núna að þessi þingsályktunartillaga er augljóslega samin á handahlaupum. Það sem vekur kannski mesta athygli er að leggja á niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Hv. þm. Árni Páll Árnason hefur farið yfir það í þingræðu að það mál var ekki neitt rætt innan ríkisstjórnar og ekki innan þingflokka heldur var því bara skellt fram, enda er ekki samstaða meðal stjórnarflokkanna um málið. Það er augljóst að Hreyfingin og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson ætla að bjarga ríkisstjórninni í þessu máli. Þau eru hins vegar ekki hér til að tala fyrir þessum breytingum heldur ætla þau einungis að bjarga ríkisstjórninni í þessu máli og verða að sitja uppi með þá ábyrgð.

Hér hafa margir þættir verið teknir inn. Einn þeirra er að stía í sundur Fjármálaeftirliti og Seðlabanka, þvert á það sem sérfræðingar hafa bent á að sé skynsamlegt. Reyndar hafa sérfræðingar bent á, og ég hélt að góð sátt væri um innan þingsins, að sameina Fjármálaeftirlit og Seðlabanka. Sjálfur hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði í desember á síðasta ári að hann vildi sameina Fjármálaeftirlit og Seðlabanka. Núna sjáum við hins vegar þingsályktunartillögu sem gengur út á það að setja Fjármálaeftirlit og Seðlabanka hvort í sitt ráðuneytið. Ég hef ekki heyrt ein einustu efnislegu rök fyrir því. Ástæðan fyrir því að menn vildu setja hvort tveggja undir sama ráðuneyti, þ.e. efnahags- og viðskiptaráðuneyti, var sú að þeir vildu hafa boðleiðirnar stuttar og samvinnuna mikla. Menn töluðu um það sem byrjun á því að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann en síðan, eins og hendi væri veifað, þvert á yfirlýsingar sem eru alveg glænýjar, var komið fram með þessa þingsályktunartillögu um að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneytið, nokkuð sem er efst á lista yfir þær breytingar sem núverandi ríkisstjórn ætlaði að fara í, ef menn skoða stjórnarsáttmálann, og fór í. Ég held að það þurfi ekki að leita lengi til að finna hástemmdar lýsingar á því hversu mikilvægt og skynsamlegt það væri að stofna efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

Við vitum að gríðarlega brýn hagsmunamál bíða. Það eru skuldamál heimilanna. Ríkisstjórnin er fullkomlega búin að klúðra þeim, t.d. varðandi útfærsluna eftir gengislánadóminn. Við þurfum að koma atvinnulífinu af stað. Orka þeirra sem vinna í Stjórnarráðinu mun fara (Forseti hringir.) í þessar breytingar á næstu mánuðum í stað þess að unnið verði að því sem máli skiptir.