140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það er eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í.

Rökstuðningur hæstv. forsætisráðherra fyrir þessari þingsályktunartillögu var mikið gagnrýndur við fyrri umræðu málsins og sagt að tillagan yki völd embættismanna þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra segði hið gagnstæða. Bent hefur verið á að Ragna Árnadóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjóri í dómsmálaráðuneytinu, sagði eftir að hún gekk úr ráðherrastól að menn skyldu átta sig á því að það að stækka ráðuneyti mundi auka völd embættismanna og draga úr yfirsýn og áhrifum þeirra sem bera raunverulega ábyrgð, þ.e. ráðherranna, þeirra sem eru kjörnir á fjögurra ára fresti.

Nú liggur ljóst fyrir að málið fór tiltölulega hratt í gegnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og var ekkert tillit tekið til neinna þeirra athugasemda sem komu fram við fyrir umræðu málsins þannig að það hefur engum efnislegum breytingum tekið á milli umræðna.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann um þá greinargerð og rökstuðninginn sem liggur til grundvallar þessari þingsályktunartillögu hvað varðar, eins og ég nefndi áðan, að þjappa valdi á hendur embættismönnum. Í greinargerðinni er gert ráð fyrir því að þetta muni auka skilvirkni og gera starfið markvissara en hins vegar hefur gagnrýnin öll verið á hinn veginn, að þetta muni auka vald embættismanna, þetta muni ekki auka skilvirkni. Eins varðandi kostnaðarhliðina er talað um að það muni spara verulegar fjárhæðir að sameina ráðuneyti en gagnrýnin hefur öll verið í hina áttina. Er hv. þingmaður sammála því sem fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni, rökstuðningnum fyrir þessari þingsályktunartillögu, (Forseti hringir.) eða telur hann hið gagnstæða, að þetta muni ekki auka skilvirkni og spari ekki fjármuni? Getur hann farið aðeins betur ofan (Forseti hringir.) í þá þætti?