140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:29]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, það var fróðlegt að heyra vitnað í ummæli úr ræðu hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og formanns Vinstri grænna, Steingríms J. Sigfússonar. Það er alveg rétt, eins og hv. þingmaður kemur inn á, að maður skilur ekki þær verulegu breytingar sem hafa orðið á afstöðu formanns annars stjórnarflokksins til slíkrar samþjöppunar valds og þess að minnka yfirsýnina og setja allt í hendur embættismanna. Eitt sinn varaði sá maður við þessu og taldi mjög mikilvægt, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að í málum sem þessum mættu ráðuneytin ekki verða of stór, þeir sem kjörnir væru lýðræðislega yrðu að hafa pólitíska yfirsýn yfir málaflokka og annað slíkt.

Maður er farinn að sjá að það hefur orðið stefnubreyting í töluvert mörgum málum, það má til dæmis nefna Icesave-málið þar sem þessi ágæti hæstv. ráðherra gagnrýndi það mjög ef semja ætti um Icesave-samningana og sagðist verða sá harðasti gegn því. Það sama má segja um Evrópusambandsmálið. Kvöldið fyrir kjördag sagði hann að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili.

Mig langaði bara að velta þessu upp við hv. þingmann: Af hverju lætur Vinstri hreyfingin – grænt framboð Samfylkinguna beygja sig í þessu máli? Telur hv. þingmaður að þetta mál eigi fremur rætur að rekja til hæstv. forsætisráðherra og Samfylkingarinnar en til Vinstri grænna? Maður skilur þetta ekki því að það virðist ekki vera breiður stuðningur við þetta í samfélaginu. Það er ekki breiður stuðningur við þetta á þingi. Er hæstv. ráðherra og formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, enn á ný að gefa eftir gagnvart Samfylkingunni? Hver gætu annars verið rökin fyrir því í þessu máli? Það væri fróðlegt að fá sýn hv. þingmanns á því.