140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugavert og það væri áhugavert að fá að vita hvaðan hugmyndin um að leggja niður efnahags- og viðskiptaráðuneyti kom. Hver eru efnislegu rökin fyrir því? Jú, þau eru að efnahags- og viðskiptaráðuneytið sé of lítið, það vanti starfsfólk þar til að sinna ákveðnum hlutverkum til að efnahags- og viðskiptaráðuneytið geti staðið undir nafni.

Virðulegi forseti. Er það fólk í fjármálaráðuneytinu? Hefur einhver fundið einhverja deild í fjármálaráðuneytinu sem hefur verið að bíða eftir þessum verkefnum? Ef svarið er nei við því, sem ég býst við, hvað kostar þá að setja þá deild upp í fjármálaráðuneytinu? Það hlýtur að kosta svipað og að setja hana upp í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, mundi ég ætla. Þetta liggur ekki fyrir.

Varðandi spurninguna hvort hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon sé að gefa eftir gagnvart Samfylkingunni held ég að svarið sé einfaldlega þetta: Þetta er niðurstaða pólitískra hrossakaupa þessara stjórnarflokka. Þeir hafa komið sér saman um að skipta fengnum með þessum hætti. Þetta fólk er ekki að berjast fyrir bættum hag almennings, svo mikið er víst, með athöfnum sínum, heldur er það í því að skipta völdum.

Mér sýnist hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni líða ágætlega, hann er kominn með slatta af ráðuneytum og ekki minnka völd hans við þetta. Svo held ég að ekki felist minni völd í því að láta fólk sem er tiltölulega nýkomið í pólitík, ágætisfólk, taka við stórum ráðuneytum sem hann var áður í. Hver er að gefa eftir gagnvart hverjum? Mér sýnist ýmislegt benda til þess að leifarnar af Vinstri grænum, í það minnsta þeir sem eru í æðstu stöðum, séu að velta fyrir sér að renna inn í Samfylkinguna. Þetta gæti alveg verið liður í því.

Það er ljóst að þetta er ekki vel undirbúið, (Forseti hringir.) þetta er ekki unnið faglega og (Forseti hringir.) þessar hugmyndir eru fullkomlega glænýjar.