140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að við hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson höfum leyft okkur, af því að annað er ekki hægt, að velta þessu fyrir okkur út frá öðru sjónarhorni en bara þeim texta sem hér er. Báðir höfum við áhuga á stjórnmálum og ég tala nú ekki um fortíð íslenskra vinstri manna og hvernig þau mál þróast. Ég held að við höfum komist að þeirri niðurstöðu hér einhverja nóttina, og ég stend við það, að sá alþýðubandalagsþráður sem er í báðum flokkunum sé alveg gríðarlega sterkur og að til dæmis þessi ofurtrú á Evrópusambandið sé ekkert ósvipuð ofurtrú fyrirrennara Alþýðubandalagsins á Sovétríkin á sínum tíma og þó svo að ég vilji ekki bera saman Sovétríkin og Evrópusambandið er hins vegar karakterinn ekki ósvipaður í flokkunum, þessi ofurtrú á eitt og það leysi einhvern veginn alla hluti. Ég held að í flestum öðrum stjórnmálaflokkum sé slík hugsun framandi.

Ég hvet menn til að skoða bls. 17 í stjórnarsáttmálanum, þó að segja megi að stjórnarsáttmálinn ætti í rauninni að heita öfugmælavísur því að þar er búið að snúa öllu við. Þar er hins vegar skýrt tekið fram röksemdirnar fyrir því til dæmis að fara í efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Þá spyr maður og þetta er mjög eðlileg spurning eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði: Hvað er eiginlega í gangi? Af hverju setja menn hundruð milljóna í einhverjar breytingar sem menn vita að verður snúið til baka? Það er mjög erfitt að rýna í það. Ég velti fyrir mér hvort þetta snúist um það að stjórnarherrarnir, því að það hefur aldrei verið jafnmikið leiðtogaræði og er núna í stjórnarflokkunum, séu að herða tökin enn frekar, þetta snúist um að sjá til þess að það sé ekkert verið að þvælast fyrir, að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra Steingrímur J. Sigfússon geti stýrt þessu öllu (Forseti hringir.) með auðveldari hætti en hefur verið.