140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að það er svo augljóst að þetta mál er sett hér inn bara til þess að láta stimpla það hefur verið erfitt að taka alvöruumræðu um efnisþætti málsins. Til dæmis hafa menn ekki rætt, af því að hv. þingmaður nefndi hér samskipti við stofnanir, hvað fólk væri að gera í Stjórnarráðinu. Nú er það ekki svo að mér finnist opinberir starfsmenn, alveg sama hversu góðir þeir eru, hafa einhvern rétt á því að segja að þeir vilji ekki breytingar og þá verði þær ekki. Það er ekki þannig. Hins vegar er áhugavert að kannanir sýna að óánægja með samskiptin við Stjórnarráðið hefur aukist alveg gríðarlega hjá stofnunum hins opinbera. Það kemur fram í könnun sem Ómar Kristmundsson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur kynnt. Nú kemur þetta úr þeim ranni sem ég get ekki sagt að sé andstæðingur ríkisstjórnarinnar, en látum það liggja milli hluta. Þetta eru bara kannanir sem eru gerðar og óánægjan í samskiptum við Stjórnarráðið hefur aukist mjög frá árinu 2007. Hvað hefur gerst síðan 2007? Þetta er að vísu misjafnt eftir ráðuneytum en það virðist að með þau ráðuneyti sem minnst hafa breyst eða ekkert breyst sé meiri ánægja.

Það þekkja allir sem hafa farið í svona ferli að það fer gríðarleg orka í þetta. Það er mikil spenna, það er spenna milli ráðuneyta, það er spenna á nýjum stað þegar sameining verður. Síðan eru náttúrlega praktískir hlutir. Segjum sem svo að forstöðumaður eða starfsmaður úti á landi eða hvar sem er sem á í samskiptum við ráðuneyti og þegar komið er glænýtt ráðuneyti, glænýtt skipurit og kannski nýbúið að breyta því, nýkominn í samskipti við einhverja aðila og þá er því öllu breytt og það er kannski ekki ljóst hver á að hafa samskipti við hann. Það er ekki vænlegt til árangurs því að það verður að vera og ætti að vera kosturinn við okkar litla stjórnkerfi og okkar litla Stjórnarráð að þessir hlutir séu einfaldir, en við erum örugglega ekki að einfalda þá núna. (Forseti hringir.) Ef þetta hefur einhvern tímann þurft að vera einfalt og skilvirkt (Forseti hringir.) er það núna þegar eldar brenna bæði hjá heimilunum og fyrirtækjunum í landinu.